„Þetta er í raun tvíþætt, annars vegar er það framkvæmd þessa flutnings og hins vegar eru það viðbrögð ráðherra. Og samskipti ráðherra í tengslum við þennan atburð. Að því varðar framkvæmdina þá tók ég upp mál að eigin frumkvæði fyrir einu og hálfu ári síðan sem laut að flutningi manns sem notaði hjólastól. Þar var fjallað sérstaklega um þarna var maður sem var í viðkvæmri stöðu og það virtist ekki hafa verið tekið nægilegt tillit til hans sérþarfa við framkvæmd þessa flutnings. Þannig að það mál er ákveðið fordæmi fyrir því að það ber að vanda til framkvæmdar svona flutnings. Því máli lauk með því að ríkislögreglustjóri sagði að þessu yrði breytt til framtíðar, það yrði fengið betra tæki sérútbúið til að sinna svona flutningi og það yrðu settar verklagsreglur í kringum það.“
Þetta segir Skúli Magnússon, fráfarandi umboðsmaður Alþingis og innan skamms hæstaréttardómari, um mál Yazan Tamimi en við Rauða borðið í kvöld verður sýnt ítarlegt viðtal við hann. Skúli segir að víða sé pottur brotinn í íslensku samfélagi og lýsir annasömum störfum sínum sem umboðsmaður Alþingis síðustu ár. En um mál Yazans segir Skúli enn fremur:
„Að því er varðar það sem gerist í framhaldinu, frestun á þessum flutningi og annað, þá get ég ekki sagt annað en það að það hljómar aldrei vel í eyru umboðsmanns þegar ráðherra segist ekki vera að fara að lögum.
Orðið geðþótti kom einnig fyrir…
„Það hljómar ekki heldur vel í eyru umboðsmanns vegna þess að stjórnsýslan á að vera lögbundin og málefnaleg. Og andstæðan við málefnalegt er geðþóttalegt. Þannig að það hljómar ekki vel.“
Við Rauða borðið í kvöld má sjá og heyra ítarlegt viðtal við fráfarandi umboðsmann Alþingis, Skúla Magnússon.