Fyrir ríflega fjórum árum lagðist fjármálaráðuneytið, þá undir Bjarna Benediktssyni, gegn því að Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands um áratugaskeið, yrði ráðinn sem ritstjóri fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review. Framkvæmd þessa nútímavinnubanns var í raun einföld: starfsmaður ráðuneytisins kom þeim boðum til kollega sinna í norrænum fjármálaráðuneytum og til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðuneytið gæti ekki stutt að Þorvaldur fengi þetta starf. Þessi fjöldatölvupóstur varð til þess að ráðning, sem hafði verið handsöluð, var dregin til baka.
Þessi bannfæring Þorvalds hneykslaði ekki síst vegna þess að ástæðan var sögð afskipti hans af stjórnmálum. Þetta þótti mörgum ósanngjarn dómur í ljósi þess að fræðimennska hans er almennt talin ógildishlaðin og nokkuð hlutlaus. Ólíkt mörgum öðrum prófessorum.
Síðar kom svo í ljós að það var einungis einn maður sem tók þá ákvörðun að leggja þennan stein í götu Þorvalds á Norðurlöndum. Sá maður var ekki Bjarni Benediktsson heldur starfsmaður ráðuneytisins. Stundin greindi frá því að Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri deildar innan ráðuneytisins, hafði ákveðið þetta einn án samráðs og látið svo undirmann sinn senda tölvupóstinn.
Þetta atvik varð þó ekki til þess að draga úr starfsframa Tómasar hjá íslenska ríkinu. Allavega má ekki ráða það af ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, núverandi fjármálaráðherra, að skipa Tómas í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins til 31. mars næstkomandi. Frá því greina nær allir fjölmiðlar í dag.
Starfið verður svo auglýst síðar. Oft í íslenskri stjórnsýslu gerist það að sá skipaði fær starfið að lokum. Þegar það hefur gerst þá hefur það verið rökstutt með því að reynsla af starfinu sé mjög mikilvæg, sem sá skipaði vissulega hefur, þó stutt sé.