„Verð að viðurkenna, að mér finnst stórfurðulegt að fyrirtæki í opinberri eigu, sem ekki hefur staðið við áform um uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða, sé að greiða arð til eigenda sinna. Hagnaður slíks fyrirtækis á eingöngu að fara í uppbyggingu þessara innviða og ekki fyrr en þeir eru komnir í það horf sem þjóðfélagið þarf og krefst, sé hægt að velta þeim möguleika upp að greiða arð.“
Þetta segir Marinó G. Njálsson á Facebook en að hans mati ætti enginn opinber rekstur að vera hagnaðardrifinn. „Arðgreiðslur opinberra fyrirtækja til ríkisins eru ekkert annað en óbeinir skattar. Þegar slík fyrirtæki eru síðan mikilvægir þjónustuveitur fyrir almenning, þá eigi að hugleiða að reka fyrirtækin óhagnaðardrifin, enda á það ekki að vera hlutverk slíkra fyrirtækja að vera tekjulind fyrir ríki og sveitarfélög með hagnaði sínum,“ segir Marinó.
Hann segir enn fremur að þetta ætti sérstaklega að eiga við um rekstur sem snýr að grunninnviðum landsins. „Ég vil ganga svo langt, að ENGINN opinber rekstur, og þar með fyrirtæki í eigu opinberra aðila, eigi að vera hagnaðardrifinn. Allra síst rekstur sem snýr að grunninnviðum þjóðfélagsins. Jafnframt eigi rekstur slíkra grunninnviða að vera í höndum opinberra aðila.“