Finnsk stjórnvöld ráðgera að verja 2,3% landsframleiðslu sinnar (GDP) í varnarmál á næsta ári, að því er Varnarmálaráðuneyti landsins tilkynnti á mánudag, eða 6 milljörðum evra. Það jafngildir 850 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.
Fjárveitingar landsins til hernaðarmála hafa aukist á undanliðnum árum, meðal annars vegna yfirstandandi endurnýjunar á herþotuflota þessa. Þá hefur landið veitt Úkraínu verulega hernaðaraðstoð. Verðmæti þeirra hergagna sem Finnland hefur þegar sent landinu nemur 1,3 milljörðum evra, eða um 185 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt Reuters.
Finnland er nýjasta aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) og varð 31. meðlimur þess á leiðtogafundi NATO-ríkja sem var haldinn í Vilníus nú í júlí síðastliðnum. Á sama fundi samþykktu öll aðildarríkin að verja árlega minnst 2 prósentum landsframleiðslu sinnar í varnarmál til frambúðar, og að fimmtungi þeirrar fjárhæðar yrði varið til hergagna, að meðtalinni rannsóknar- og þróunarvinnu til slíkrar framleiðslu. Þá skrifuðu aðildarríkin, í sömu yfirlýsingu, undir að þau gerðu sér grein fyrir að enn hærri framlaga væri þörf til lengri tíma litið.