Flokksráðsfundur í skugga slæmrar stöðu Sjálfstæðisflokksins

Það er óhætt að segja að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forysta flokksins mæti til flokksráðsfundar með flokkinn í stöðu sem almennt félagsfólk telur óásættanlega. Í nýrri könnun Maskínu mældist flokkurinn með 17,6% fylgi. Fjórðungur af kjörfylginu er farinn. Samfylkingin mælist með 8,5 prósenta forskot á Sjálfstæðisflokkinn, næstum helmingi fleiri segjast vilja kjósa Samfylkinguna en Sjálfstæðisflokkinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn er með aðeins 4,5 prósenta forskot á Pírata, aðeins fjórðungi færri segjast vilja kjósa Pírata en Sjálfstæðisflokkinn.

Það er ekki bara að fylgið sé lágt hjá Sjálfstæðisflokknum heldur getur hann ekki gert kröfu um að vera forystuafl í íslenskum stjórnmálum frá þessari stöðu. Ef við tökum eðlilegt brottfall vegna kjörsóknar má reikna með að um 13,7% landsmanna séu tilbúin í dag til þess að skeiða á kjörstað og kjósa þetta fyrrum stórveldi sem Sjálfstæðisflokkurinn var frá stofnun og fram að hruni efnahagskerfisins 2008.

Frá Hruni hefur kvarnast úr flokknum. Evrópusinnar stofnuðu Viðreisn. Hluti alþýðufylgisins kaus Flokk fólksins. Miðflokkurinn hefur dregið til sín sótsvart íhaldsfólk. Framsókn hefur selt sig undanfarið sem mildara íhald. Og með þessa valkosti til hægri hefur Sjálfstæðisflokkurinn reynt að selja sig sem þann sem treystandi er fyrir stjórn landsins, einkum efnahagsmálum. Það er hins vegar erfið söluræða þegar verðbólgan geisar, vextir eru háir, halli er á ríkissjóði á sama tíma og grunninnviðir eru fjársveltir. Sú mynd er að festast á flokknum að hann sé fyrst og síðast hagsmunagæsluflokkur fyrir hin ofsaríku. Og Bjarni Benediktsson er náttúrlega táknmynd þess, verandi fæddur með silfurskeiðar í munninum. Og með reynslu af fyrirtækjarekstri þar sem hinum ríku er alltaf bjargað á kostnað hinna.

Og ríkisstjórnarsamstarfið veldur óánægju í flestum deildum Valhallar. Það er almenn tilfinning flokksfólks að ríkisstjórnin endurspegli hvorki stefnu flokksins né vilja flokksmanna.

Það er í þessu andrúmi sem Bjarni hélt glærusýningu í gær um stöðu ríkissjóðs. Hann var að sannfæra Sjálfstæðisflokksfólk um að hann hefði stjórn á ríkisfjármálum. Og í morgun mætti hann í Dagsljós Moggans til að verja veru flokksins í þessari ríkisstjórn og sverja af sér ábyrgð á verðbólgu og stjórnleysi í mörgum málum. Hann reyndi meira að segja að þvo hendur sínar af kerfinu, bákninu svokallaða, sem þó er höfundarverk hans og Sjálfstæðisflokksins.

Það er langt síðan Bjarni, eða nokkur annar formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið í viðlíka vörn gagnvart eigin fólki. Kannski þarf að fara aftur til formannstíðar Þorsteins Pálssonar seint á níunda áratugnum til að finna formann sem nýtur minni stuðnings innan flokksins. Bjarni var kjörinn með 60% atkvæða fyrir tæpu ári, sem hefði verið góð kosning fyrir flesta nema sitjandi formann.

Og aðferð flokksins til að auka fylgi virðist ekki vera að ganga upp. Í heilt ár hefur flokkurinn rekið harða innflytjendastefnu í von um að auka fylgi sitt. Fyrir ári síðan mældi Maskína fylgi flokksins 20,9% og fannst mörgum Sjálfstæðisflokksmanni of lágt. Nú mælist fylgið 17,6%. Fyrir ári mældist fylgi Miðflokksins 4,5% en mælist nú 7,9%. Eins og oft áður sveiflast fylgi þessara flokka saman. Ef fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar þá eykst fylgi Miðflokksins. Og öfugt. Áhersla forystu Sjálfstæðisflokksins á stjórnleysi í málefnum flóttafólks hefur því ekki gert annað en að færa sem nemur um 3,3 prósentum yfir til Miðflokksins, sem nýtur þess að bera ekki ábyrgð á þessum málaflokki. Sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir og hefur gert lengi, nánast án undantekninga í lýðveldissögunni.

Þessi færsla á fylgi sýnir hversu lítið stórkarlalegar yfirlýsingar í útlendingamálum hreyfa fylgi. Það eru fáir sem taka undir með forystu Sjálfstæðisflokks og Miðflokks um að þetta séu stærstu mál samtímans. Saman hafa þessir flokkar að jafnaði um 25% fylgi í skoðanakönnunum, álíka og Svíþjóðardemókratar á góðum degi. Með því að keppa um hver er harðari í útlendingamálum geta flokkarnir fært eilítið fylgi á milli sín, en ekki aukið sameiginlegt fylgi. Þeir færa hægrið hins vegar út á jaðar stjórnmálanna og skilja miðjuna eftir fyrir aðra. Og nú vex ekki bara Samfylkingin heldur Píratar líka og Viðreisn bætir við sig. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hrörnar í samkeppni við Miðflokkinn um hvor flokkur séu hinir raunverulegu Íslandsdemókratar.

Bjarni þarf því á flokksráðsfundinum ekki aðeins að verjast ásökunum um að hafa ekki farið að stefnu Sjálfstæðisflokksins, að ríkisstjórnin ráði ekki við stöðu efnahagsmála heldur líka að taktík hans til að verja og auka fylgi flokksins gangi ekki upp.

Myndin er af Bjarna í fremur mildilegu viðtali í Dagmálum dagsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí