Forstjóri sakaður um að hafa hvatt til útskúfunar minnihlutahóps

Nokkur reiði birtist um þessar mundir á samfélagsmiðlum í garð Kára Stefánssonar, vísindamanns og forstjóra, fyrir að tjá sig nú með öðrum hætti um bóluefni gegn Covid-19 en hann gerði þegar bólusetningar hófust. Í nýlegu viðtali sagði Kári að héðan í frá teldi hann ekki ráðlegt að bólusetja fólk undir fertugu eða jafnvel fimmtugu, gegn veirunni SARS-2, sem liggur að baki sjúkdómnum. Eldra fólk hefði meiri ávinning af bólusetningu en sem næmi mögulegum aukaverkunum, en það væri ekki jafn ljóst um aðra. „Bara vegna þess að með öllum lyfjum, hvort sem það eru bóluefni eða annað, þá ertu alltaf að meta annars vegar akkinn af því og hins vegar áhættuna sem þú tekur. Læknisfræði í dag er ekkert annað en sífellt mat á líkum.“

Á móti þessum ummælum hefur fjöldi fólks dregið upp fyrri ummæli Kára. Í nóvember 2021 sagði Kári meðal annars: „Mér finnst persónulega eins og það sé drullusokksháttur að láta ekki bólusetja sig. Ekki vegna hagsmuna okkar sem einstaklinga heldur vegna hagsmuna samfélagsins. Ég myndi ekki gráta það ef þess yrði krafist af fólki að það færi í bólusetningu.“

Margir hafa nú vakið athygli á þrýstingi sem þeir upplifðu á sínum tíma, um að láta bólusetja sig, og einhverjir nefnt að atvinna þeirra hafi verið í húfi, í störfum allt frá umönnun til öryggisgæslu. Þennan þrýsting segist fólk meðal annars hafa upplifað í krafti ummæla Kára, sem átti í nánu samstarfi við stjórnvöld á þessum tíma. Sá skilningur hafi þá verið ríkjandi að bólusetning væri nokkurs konar samfélagslegt skylduverk.

Tónlistarmaður eggjar landsmenn til að efast betur næst

Þessi umræða um afstöðu Kára, sem birtist fyrst á samfélagsmiðlum, hefur nú teygt sig yfir í hefðbundna fjölmiðla: Vísir birtir í dag, þriðjudag, grein eftir Einar Scheving, tónlistarmann, undir yfirskriftinni „Að viðurkenna mis­tök án þess að viður­kenna mis­tök“. Höfundur reifar ummæli Kára og dregur saman í svohljóðandi niðurlag:

„Ég spyr því alla sómakæra landsmenn hvernig þeir ætla að bregðast við næst þegar Kári, eða einhver annar með álíka kröftugt gjallarhorn og marga aðdáendur, ætlar að ráðskast með heilsu og hag þjóðarinnar – og það jafnvel með hatursorðræðu sem hvetur til útskúfunar minnihlutahóps? Ætlum við alltaf að bíða þangað til óhætt er að líta í baksýnisspegilinn?“

Á athugasemdaþráðum samfélagsmiðla má sjá að reiðin beinist ekki aðeins að Kára heldur brýst hún út í garð fjölda þeirra sem komu nálægt sóttvarnaraðgerðum þegar Covid-19 faraldurinn var í hámæli. Hugarórar um aftökur og hatursfull uppnefni eru í því samhengi orðin nógu tíð til að varla tekur því að nefna tilfellin.

Sérfræðingar halda sig fjarri umræðunni

Tímaritið Nature birti fyrr í sumar ítarlega samantekt á birtum rannsóknum um langtímaafleiðingar Covid-19, eða long COVID. Á sama tíma og ljóst er að aukaverkanir bólusetninga geta verið alvarlegar, þá bendir fjöldi rannsókna til að alvarlegar afleiðingar sjúkdómsins sjálfs séu umtalsvert algengari. Í niðurlagi greinarinnar í Nature má lesa: „Byrðin sem fyrirsjáanlegt er að sjúklingar, heilbrigðiskerfi, stjórnvöld og hagkerfi muni bera vegna long COVID er svo mikil að hún er óhugsandi, sem er mögulega ástæða þess hversu lítilli athygli er varið í hana á æðstu stjórnstigum. Ef 10 prósent sýkinga leiða til viðvarandi einkenna, þá má spá því að um 400 milljónir einstaklinga í heiminum muni þarfnast stuðnings vegna long COVID.“

Úrklippa úr niðurlagi greinarinnar „The immunology of long COVID“, sem birtist í timaritinu Nature, 11. júlí 2023.

Að sérfræðingar leggi orð í belg um faraldurinn er orðið afar fátítt hér á landi. Hvorki heyrist mikið til lækna, fulltrúa embætta á við landlækni og sóttvarnalækni, né þeirra sem starfa við rannsóknir. Ef rétt er, eins og haldið er fram í Nature-greininni, að tíu prósent sýkinga leiði til langtímakvilla, og ef íbúar Íslands eru ekki af einhverjum óþekktum ástæðum undanskildir þeirri tölfræði, þá má ætla að minnst um 20 þúsund manns hér á landi leiti nú skýringa á nýfengnum, langvarandi einkennum.

Umræðan nú síðsumars bendir þó til að íbúar landsins hafi meiri áhyggjur af aukaverkunum bólusetninga en af afleiðingum sjúkdómsins sjálfs.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí