Framlög Íslands til þróunarmála, sem hlutfall af þjóðartekjum, hefur hækkað statt og stöðugt frá aldamótum, úr 0,12% árið 2000 í 0,34% árið 2022. Kostnaður vegna flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi hefur verið reiknaður sem hluti þessara útgjalda frá árinu 2014. Þrátt fyrir það er heildarframlag Íslands til þróunarsamstarfs enn ívið lægra hlutfall af þjóðartekjum en að meðaltali í ríkjum OECD, þar sem hlutfallið var 0,36% árið 2022.
Þetta kemur fram í greinargerð sem fylgir drögum að þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnustefnu, sem lögð hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.
Mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál
Um áherslur og markmið með þróunarsamvinnu komandi ára er í greinargerðinni lagt til að stuðst verði við sömu grundvallarsýn og undanliðin ár, með skýrar áherslur á fá málefnasvið og samstarfsaðila, í þágu þess að ná sem mestum árangri af framlagi Íslands.
Í kafla um yfirmarkmið og „þverlæg málefni“ eru þessi áhersluatriði í þróunaraðstoð Íslands sögð mannréttindi og jafnrétti kynjanna, annars vegar, og umhverfis- og loftslagsmál hins vegar, bæði „sértæk og þverlæg áhersluatriði og sem slík samþætt í allt starf, allt frá undirbúningi verkefna til úttekta“.
Þar sem nú er talað um umhverfis- og loftslagsmál var áður rætt um sjálfbæra þróun segir í greinargerðinni. Orðalagsbreytingin er ekki sögð fela í sér áherslubreytingu heldur ætluð til að skerpa á forgangsröðun. „Sjálfbær þróun verður eftir sem áður grundvallaratriði í allri þróunarsamvinnu, enda snýr hún að öllum hliðum starfsins og er miðpunkturinn í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“