Hin fátæku sækja ekki réttlæti til dómstóla, þar ríkir réttlæti hins sterka

„Lögin um dómskerfið eru löngu úrelt sem leiðir af sér ýmis skrýtilegheit meðal annars undar­lega dóma sem ekkert eiga skylt við raunveru­leik­ann í nútímanum og hefur til­hneig­ingu til þess að vera mótdrægt al­menn­ingi,“ segir Jörgen Ingimar Hansson rekstrarverkfræðingur sem skrifaði bók eftir reynslu sína af dómskerfinu, bók sem hann nefnir Réttlæti hins sterka.

Ingimar lýsir réttarkerfinu sem óréttlátum leikvelli þar sem hin ríku geta teygt mál og togað, þreytt hin fátæki svo þau nái engu réttlæti. „Algengt er að dómarar tilgreini aðeins í dómsforsendum sannanir og röksemdir dómnum í hag en geti jafnvel alls ekki sannana og röksemda þess sem hann dæmir í mót. Það þýðir að hann getur valið sér sannanir til þess að dæma eftir sem auð­veld­ar það mjög að hann geti dæmt hverjum sem er í vil óháð lögum og réttlæti sem er al­menn­ingi mjög mótdrægt. Í því sambandi þarf sérstaklega að hafa í huga að dóms­kerfið er búið til af Alþingi þar sem flest atriði ganga út á það að tryggja hag hinna best settu,“ segir Ingimar.

„Ekki er einu sinni ýjað að því í lögunum að dómar eigi að vera réttlátir, sann­gjarn­ir eða að heilbrigð skynsemi eigi að ráða för. Það eitt gæti rétt hlut hinna efna­minni í dómskerfinu svo um munar,“ segir hann. Og finnst sem dómskerfið sé komið langt frá heilbrigðri skynsemi.

Ingimar nefndi í viðtali við Rauða borðið fjórar reglur innan réttarkerfisins sem vinni gegn hinum fátækari en færi hinum ríkari sigur. Hann stillir þessu svona upp:

„Í fyrsta lagi er það forræðisreglan, það er reglan um forræði málflytjenda á gangi máls­ins, það er að þeir stýri honum en síður dómarinn sem aðeins grípur inn í við sér­stak­ar aðstæður. Vilji annar aðili málsins þenja það út verð­ur hann því seint stopp­aður af.

Eins og allir vita gengur það ekki upp að þrír aðilar með jafn ólíka hagsmuni og oftast er í dómsmáli reyni að stjórna framkvæmd þess óháðir hver öðrum og hver á sinn hátt. Niðurstaðan er því mikil hætta á óstjórn og að sá sem ætlar sér að ganga lengst í að þenja málið út sé sá sem ræður í raun. Allt er þetta í boði Alþingis.

Í öðru lagi má nefna málshraðaregluna, það er lagaregluna um að aðilar máls eigi að hraða dómsmáli sem verða má. Hún virðist samt einkum notuð til þess að reyna að hindra að sannanir komist að þegar and­stæðing­urinn þarf að afla þeirra. Þá liggur allt í einu mikið á. Merkilegt er hve mikið púður getur farið í að koma í veg fyrir að hinn aðilinn geti komið sönnunargögnum að í málinu.

Í þriðja lagi er það þagnarreglan. Hún gengur út á það að aðilar máls þurfa ekki að svara spurningum í réttarsal og heldur ekki að leggja fram gögn sem hinn aðili málsins krefst að hann geri, þar sem það sé afgerandi fyrir niðurstöðu málsins. Það virðist gert til þess að hygla hinum best settu í þjóðfélaginu sem reyndar kemur mis­indismönnum best þegar upp er staðið. Almenningur hefur sára sjaldan eitthvað að fela. Þetta gefur þeim þann möguleika að beita í staðinn gagnkröfum sem þeim hentar, sem hinn aðili málsins þarf að vinna í. Síðan má beita málshraðaregl­unni til þess að hindra eða tefja fyrir því að hann geti það.

Í fjórða lagi er svo sú regla sem ég kalla sannleiksregluna. Hún mun ekki vera til í dómskerfinu í þeirri mynd sem ég set hana fram. Hún gengur út á það að vara­samt geti verið að segja sannleikann í dómsal en oft til framdráttar að segja ósatt. Fyrir kemur að snúa má málinu sér í hag með því. Stundum mætti kalla dómsalinn vettvang lyg­inn­ar.

Beiting lagareglnanna getur leitt til glundroða og gefur málflytj­endum möguleika á því að stýra málinu í þann farveg sem kemur andstæðingnum sem allra verst og ýta kostn­aði á hann á margvíslegan hátt í þeim mæli að helst minnir á pókerspil. Þar á sá sem hefur takmarkaðri fjárráð undir högg að sækja vegna þess að hann get­ur ekki lagt eins mikið undir.“

Heyra má og sjá viðtalið við Ingimar í spilaranum hér að neðan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí