Á tíunda tímanum í gærkvöld var enn verið að slökkva í glæðum iðnaðarhúsnæðis sem kveiknaði í að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði um hádegisbil sunnudagsins en slökkvistarfi lauk undir morgun.
Ólögleg búseta var í húsinu en þar voru 17 skráðir til heimilis samkvæmt Birgi Finnssyni starfandi slökkviliðsstjóra og sagð hann að mögulega hafi fleiri hafist þar við í raun.
Blaðamaður Samstöðvarinnar náði tali af einum íbúa hússins í gærkvöld. Maðurinn horfði á gröfu brjóta brunnið brak úr svartri holu sem áður hýsti herbergið hans. „Það er allt brunnið” sagði hann, „allt farið nema fötin sem ég stend í“ bætti hann við.
Maðurinn sem er erlendur iðnaðarmaður sem er hér á landi að vinna sagðist hafa leigt herbergi í húsinu ásamt fjórum félögum sínum en um hádegisbilið í gær var hann staddur í vinnunni þegar eldsins varð vart. Félagi hans sem var heima hafði orðið var við skrítna lykt og farið fram að athuga málið og séð að reyk lagði frá iðnaðarhluta hússins. Hann hafi hringt í sig og sagt sér að drífa sig heim því það væri kveiknað í. Eldurinn hafi svo breiðst hratt út. Maðurinn sagðist ekki vita hversu margir hafi búið í húsinu öllu en að mikið væri um búsetu í húsum iðnaðarsvæðisins í kring.
Annar erlendur verkamaður sem blaðamaður ræddi við sagðist hafa skoðað herbergi til leigu í þessu húsi fyrir ekki margt löngu en honum hafi verið tjáð að skilyrði fyrir búsetu væri að hann mætti ekki skrá sig til heimilis þar.
Erfiðlega gekk hjá slökkviliði að eiga við eldinn í gær og sagði Birgir Finnsson að húsið hafi verið hlutað niður í brunahólf sem hafi raunar gert slökkvistarf erfiðara auk þess sem erfiðara hafi verið að finna eldsupptökin. Grafa var notuð til að taka þakið að hluta til af og til að brjóta brunnið timbur frá einum hluta hússins til að hindra hann í að fara í þann næsta.
Samkvæmt fréttastofu RUV dró verulega úr umfangi viðbragðsaðila upp úr eitt í nótt og slökkviliðið lauk störfum um fjögur í morgun.
Birgir segir brunavarnir í húsinu ekki hafa verið í lagi og að það hafi verið komið á skrá hjá slökkviliðinu sökum þess að þar væri ólögleg búseta.
Stutt er frá því að eldur kom upp í húsnæði sem ekki fyllti upp í skilyrði um brunavarnir fyrir íbúðarhúsnæði en það var bruninn í áfangaheimilinu Betra Líf í Vatnagörðum. Þá var nefnd á vegum innviðaráðuneytisins starfandi í þeim tilgangi að auka lagaheimildir slökkviliðs til að aðhafast í málum sem þessum. Nefndin hafði upphaflega heitið því að klára þá vinnu í júní á þessu ári en sá svo fram á tafir.