Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22, rétt fyrir klukkan 13.00 í dag og er slökkvilið enn að störfum á vettvangi.
Húsnæðið sem er á skilgreindu iðnaðarsvæði hefur einnig verið nýtt sem íbúðarhúsnæði en þar hafa verið leigð út stúdíórými með salernisaðstöðu auk þess sem íbúð virðist vera í húsinu. Árið 2016 beitti bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar dagsektum á þáverandi eigendur vegna ólöglegrar búsetu í húsinu og ólöglegar breytingar hafa einnig átt sér stað þar.
Samkvæmt fréttastofu RUV sást til þó nokkurra íbúa hússins flýja eldinn sem breiddist hratt út. Sást til fólks hlaupa af þaki þess og í kring um það og vakti vegfarandi upp fjögurra manna fjölskyldu sem búsett er í húsinu.
Össur Hafþórsson húðflúrari og bílasafnari var með gamla bíla og safnaeign sína til fjörutíu ára í húsinu en hans hluti rýmisins hafði ekki orðið eldinum að bráð fyrr í dag og náðist að bjarga einhverjum bifreiðum út.
Mikinn reyk hefur lagt frá eldinum og á tímabilum verður hann svartur en svo virðist sem hjólbarðar hafi verið geymdir í húsinu.
Vegfarendur eru beðnir um að halda sig fjarri svo viðbragðsaðilar geti athafnað sig og íbúar í nágrenninu eru beðnir um að loka gluggum þar sem svartan reykinn leggur yfir hverfið.
Ekki er enn vitað hvort slys hafi orðið á fólki né hversu margir voru í húsinu eða eru þar enn.