Þrjú stærri lönd í okkar heimshluta eru utan Nató, Írland, Austurríki og Sviss. Og þrátt fyrir innrás rússneska hersins í Úkraínu, 2014 og aftur 2022, þá er ekki að sjá að almenningur í þessum löndum hafi áhuga á að breyta þessari tilhögun. Fólk upplifir sig öruggt utan Nató.
Þetta kemur kannski almenningi á Íslandi á óvart, en ætla má af fréttaflutningi og almennri umræðu að það gangi næst sjálfsmorði fyrir lönd að standa utan Nató. Það er alls ekki upplifun almennings í þessum löndum. Mikill meirihluti hans vill engu breyta.
Hlutleysisstefnan er inngróin inn í þjóðarsál Svisslendinga. Kannanir fyrir innrás Rússa 2022 sýndu 97% stuðning Svisslendinga við hlutleysi en ári eftir innrás mælist stuðningur við hlutleysisstefnuna um 91%. Áfallið er ekki meira en þetta.
Í könnun frá í vor sögðust 21% Austurríkismanna vilja að landið sækti um aðild að Nató, en 61% voru á móti og 19% skiluðu auðu. Ef aðeins eru tekin þau sem tóku afstöðu vilja 26% í Nató en 74% ekki.
Í sumar voru írar spurðir í könnun hvort þeir styddu óbreytta hlutleysisstefnu. 61% sögðust styðja hana en 26% vildu sjá breytingar. 13% gáfu ekki upp afstöðu. Ef við tökum aðeins þau sem tóku afstöðu vildu tæp 30% sjá breytingar á hlutleysisstefnunni en 70% ekki.
Og hvaða breytingar vildu þessi 30% sjá? 71% vildu sjá Íra tengjast hernaðaruppbyggingu Evrópusambandsins en 56% að Írar gengu í Nató. 56% af 30% eru tæplega 17%. Það er hlutfall Íra sem vilja í Nató.
Í könnun Maskínu fyrir ári sögðust um 70% Íslendinga vera jákvæð gagnvart veru landsins í Nató. Og í könnun Nató frá í sumar voru 75% landsmanna hlynnt aðild landsins að Nató. Af þessu má líklega draga þá ályktun að mikill meirihluti landsmanna styðji óbreytta stefnu í varnarmálum, hvort sem landið er í eða utan Nató. Það er ekki mikil leiðbeining um hvor kosturinn sé betri.
Myndin er að Írum að fagna degi heilags Patreks í Dublin.