Læknir vill uppgjör um viðbrögð við faraldrinum – Veiran ræskir sig og minnir á að hún er enn hérna

Síðastliðinn föstudag birti Vísir grein eftir Ingileif Jónsdóttur, prófessor emerita í ónæmisfræðum, og Kára Stefánsson, þar sem þau færa rök fyrir því áliti að „þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til í faraldrinum hafi verið rökréttar miðað við þær forsendur sem lágu fyrir og að flestar þeirra standist skoðun í ljósi þekkingar sem við höfum í dag á heimsfaraldri COVID-19.“ Sá meginskilningur sem þau setja fram í greininni er að sjúkdómurinn sjálfur, Covid-19, feli í sér umtalsvert meiri áhættu fyrir þau sem fyrir verða en bóluefnin gera, þó að þeim fylgi nokkur áhætta einnig. Þau tilgreina rannsókn sem birtist í The New England Journal of Medicine árið 2021, sem hafi sýnt „á óyggjandi hátt“ að sexfalt meiri hætta sé á hjartavöðva- eða gollurshússbólgu af völdum Covid-19 sýkingar en af völdum bólusetninga.

Greininni svarar Jón Ívar Einarsson, læknir, á sama vettvangi í dag, mánudag. Hann andmælir ekki niðurstöðum þeirra rannsókna sem Ingileif og Kári tilgreina heldur teflir fram öðrum rannsóknum sem gefi til kynna að líkindareikningurinn snúist við þegar litið er til fólks undir fertugu sérstaklega, þó einkum karlmanna undir fertugu. Hann bendir á rannsókn sem birtist í fagritinu Circulation árið 2022, þar sem hann segir leitt í ljós að fólk undir fertugu hafi reynst í sexfalt meiri hættu á hjartabólgu eftir seinni bólusetningu með mRNA bóluefni en eftir Covid-19 sýkingu. Þá „dæmisögu“ segir hann þó aðeins lítinn anga af stærra máli og nauðsynlegt „að það fari fram óháð uppgjör um viðbrögð okkar við COVID-19 faraldrinum“.

Nýja afbrigðið Eris veldur uppsveiflu í smitum

Á meðan þannig er tekist á um kosti og galla bóluefna fyrir ólíka hópa heldur faraldurinn sjálfur áfram að sveima, þó að neyðarstigi hafi verið aflýst, upplýsingamiðlun dregin saman, hætta flestra sé minni nú en hún var fyrir bólusetningar og fjölmiðlar forðist orðalag á við að faraldur geisi. Í liðinni viku tilkynnti WHO um nýtt afbrigði veirunnar sem vert sé að gefa gaum. Ætla má að þess verði vart á Íslandi eins og á meginlöndunum beggja vegna eylandsins. Afbrigðinu, sem hefur raðnúmerið EG.5, hefur einnig verið gefið þjálla heitið Eris. Eris virðist komast greiðlegar framhjá fyrra ónæmi en önnur afbrigði í umferð, og veldur í krafti þess nokkurri uppsveiflu í smitum víða um heim um þessar mundir.

The Guardian leitaði af þessu tilefni til Christina Pagel, prófessors við University College London, sem sagði líklegt að afbrigðið muni valda „fjölgun tilfella og þeirra vandamála sem því fylgir, svo sem fjölgun innlagna og Long Covid tilfella, en það er ekkert sem gefur til kynna að það verði verra en fyrri bylgjur þessa árs.“ Hún bætti þó við þeim fyrirvara að dvínandi ónæmi, hvort sem er af bólusetningu eða fyrri sýkingum, gæti þýtt að Eris-bylgjan verði stærri.

Barnshafandi konur og langveik börn enn meðal áhættuhópa

Samanburðarrannsóknin sem Ingileif og Kári vísa til í grein sinni að ofan, leiðir að þeirra sögn í ljós „að alvarlegar afleiðingar sem helst verða af Covid-19 sýkingu eru hjartsláttartruflanir, bráð nýrnabilun, lungnablóðrek, blóðtappar og hjartaáföll“. Frá því að sú rannsókn birtist hefur enn bæst nokkuð í þennan sarp mögulegra afleiðinga af faraldrinum sjálfum, sem koma harðast niður á fólki í viðkvæmum hópum.

Í liðinni viku bendi blaðamaður fyrirspurn til Sóttvarnalæknis um hvernig megi nú gæta að öryggi þeirra hópa, þegar sameiginlegar sóttvarnir hafa verið felldar niður. Embættið svaraði með tilvísun á leiðbeiningar sem gefnar voru út sumarið 2022. Þar er einstaklingum í áhættuhópum ráðlagt að sýna varkárni án þess að forðast samneyti við annað fólk, viðhafa smitvarnir „sem felast í að viðhafa 1 metra nándarmörk og forðast fjölmenni eins og kostur er“. Þá er sagt að andlitsgrímur eigi við „í ákveðnum kringumstæðum“ og „tíður og góður handþvottur/handsprittun“ eigi alltaf við. Loks er þeim sem umgangast einstaklinga í áhættuhópum bent á sömu atriði og áhersla lögð á að „þeir haldi sig fjarri þeim ef þeir hafa einkenni sjúkdóms eða greinast með COVID-19.“

Meðal áhættuhópa sem fjallað er sérstaklega um í leiðbeiningunum eru aldraðir, barnshafandi konur, fólk með fíknsjúkdóma, geðraskanir, hjartasjúkdóma, krabbamein, langvinna lifrarsjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, langvinna vöðva- og taugasjúkdóma, offitu, ónæmisbælingu, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, líffæraþegar, fólk með meðfædda ónæmisgalla, skerta nýrnastarfsemi eða sykursýki, ásamt börnum með langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, eða langvinna taugasjúkdóma.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí