Lágmarkslaun á Íslandi þyrftu að fara yfir 608 þúsund krónur til að jafna lífskjör í Sviss

Sviss glímir að sumu leyti við sama vanda og Ísland, ofurhátt verðlag sem grefur undan lífskjörum launafólks, einkum hinna lægst launuðu. En Svisslendingar mæta þessum vanda með því að greiða há laun. Sem aftur hækka verðlag. En þeir hætta ekki fyrr en tryggt er að launafólkið búi við skapleg kjör.

Hérlendis er að grunnstefið í efnahagsstjórnin að halda aftur að launahækkunum, svo þær hækki ekki verðlag. Það er innbyggt í stefnuna að verjast því að launafólkið fá hærri laun til að mæta háu verðlagi.

62% hærri útborguð laun að meðaltali

Byrjum á meðallaunum. Þau voru 668 þús. kr. á Íslandi í fyrra. Það skilaði fólki rétt tæplega 476 þús. kr. eftir skatt og iðgjöld í lífeyrissjóði. Með lífeyrissjóði er skatthlutfallið 28,8%. Þau sem lifa á Íslandi sjá strax í hendi sér að það er snúið, og nánast ómögukegt, að lifa af með þessa upphæð útborgaða um hver mánaðamót.

Á sama tíma voru meðallaunin í Sviss 6.712 frankar, sem gera rúmlega 999 þús. kr. á núverandi gengi. Það er rétt tæplega 50% hærri laun en meðallaunin á Íslandi. En verðlag er hærra í Sviss, um það sem nemur 9,4% samkvæmt alþjóðlegum samanburði. Ef við tökum tillit verðlags þá jafngilda meðallaunin í Sviss um 913 þús. kr. að íslensku verðlagi. Það er 245 þús. kr. hærri laun en meðallaunin voru á Íslandi, 36,7% hærri laun að teknu tilliti til verðlags.
Og samanburðurinn er verri fyrir íslenskt launafólk. Í Sviss eru rúmar 151 þús. kr. teknar í skatt af meðallaununum, sem gera um 15,1% skatthlutfall. Svissneska meðalfólkið fær því hærri laun og greiðir lægri upphæð í skatt, og þar af leiðandi miklu lægra hlutfall launa sinna. Og fær þess meira útborgað.

Eftir skatt fær íslenska meðalfólkið tæplega 467 þús. kr. útborgaðar en svissneska launafólkið á meðallaununum fær tæplega 775 þús. kr. útborgaðar þegar búið er að taka tillit til ólíks verðlags. Þetta er ævintýralega mikill munur, tæplega 299 þús. kr. Svissneska fólkið er með 62,2% meira fé til ráðstöfunar en það íslenska.

Lágmarkslaun tryggja framfærslu

Í Sviss eru víða lágmarkslaun sett af kantónunum. Þau eru mismunandi, frá 532 þús. kr. og upp í 619 þús. kr. Munurinn ræðst af ólíku verðlagi, lágmarkslaunin eru hæðst í Genf þar sem verðlag er líka hæst.

Ef við beitum sömu aðferðum til að bera þessi laun saman við Ísland þá jafngilda lágmarkslaunin í Genf því að sambærileg laun væru rétt tæp 566 þús. kr. á Íslandi. Lægstu taxti Starfsgreinasambandsins, sem skilgreina má sem lágmarkslaun á Íslandi, er rúmlega 402 þús. kr. Lágmarkslaunin í Genf eru tæplega 164 þús. kr. hærri, sem gera 40,7%.

En skattkerfið í Sviss er réttlátara venjulegu launafólki. Þau sem eru á lágmarkslaunum í Genf greiða 7,7% launa sinna í skatt og fá útborgað tæplega 491 þús. kr. á íslenskan mælikvarða, að teknu tilliti til verðlags. Þau sem eru á lægsta taxta Starfsgreinasambandsins greiða hins vegar 19,4% tekna sinna í skatt og fá útborgað rúmlega 324 þús. kr. Svissneska láglaunafólkið fær því tæplega 167 þús. kr. meira útborgað, 51,4% meira en láglaunafólk á Íslandi.

Ef íslenskt verkafólk vill búa við sambærileg lífskjör og láglaunafólk í Sviss þyrfti að hækka lægsta taxta Starfsgreinasambandsins í um 608.500 kr. Það er rúmlega 51% launahækkun frá því sem nú er.

Gerólík efnahagsstjórn

Þetta dregur fram ólíka efnahagsstjórn í Sviss og á Íslandi. Í Sviss er þess gætt að launafólk hafi skaplegan kaupmátt þótt verðlag sé hátt. Virðisaukaskattur er þannig lágur í Sviss, 7,7% á almennar vörur og 2,5% á nauðsynjum. Á Íslandi er virðisaukinn 24% og 11% á mat og nokkrum vöruflokkum öðrum. Af þessu sést að stjórnvöld í Sviss ýkja ekki hátt verðlag með háum virðisaukaskatti. En líka að afsláttur á skattinum á nauðsynjar er meiri en hér. Nauðsynjaþrepið er þar 32% af meginþrepinu en matarskatturinn hér er 46% af skattinum á almennar vörur.

En meginmunurinn er að í Sviss vilja stjórnvöld halda launum háum svo fólk búi við sæmileg kjör. Og leggja ekki háa skatta á launafólk, hvorki fólk með millitekjur né fólk með lægstu tekjur. Takið eftir skatthlutföllunum. Í Sviss eru skattar á millitekjur 15,1% en 28,8% á Íslandi. Í Sviss er skattur á lágmarkslaun 7,7% en 19,4% á Íslandi. Skatthlutfall lægstu tekna er næstum helmingi lægra en af meðaltekjum í Sviss, en munurinn er mun minni á Íslandi.

Þarna er því um grundvallarmun að ræða varðandi þetta meginstef efnahagsstjórnarinnar, lífsafkomu fólks. Í Sviss er rekin hálaunastefna sem leiðir til þess að fyrirtæki sem ekki geta borgað há laun verða að hætta rekstri eða flytja starfsemina annað. Á Íslandi er rekin láglaunastefna sem er í reynd stuðningur við fyrirtæki sem ekki geta borgað mannsæmandi laun. Það starfsfólk sem ekki vill sætta sig við lágu launin getur flutt úr landi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí