Anna Sigrún Baldursdóttir deilir á Facebook mynd af samloku sem samkvæmt merkingu er með „smoked salmon and egg salad“. Við fyrstu sýn stingur þessi mynd ekki svo í stúf, enda búið að segja Íslendingum að nauðsynlegt sé að merkja allt á ensku fyrir alla ferðamennina. En raunin er sú að þessi samloka var smurð á Landspítalanum, fyrir starfsfólk og sjúklinga sem eru nær allir íslenskir.
Anna Sigrún skrifar: „Áhugaverðar umræður um íslenskuna og mögulegt undanhald hennar. ELMA er skammstöfun fyrir eldhús og matsali Landspítala og framleiðir góðan mat og afar góðar samlokur. Þær eru merktar á ensku með íslenskri þýðingu í minna letri. ELMA framleiðir eingöngu fyrir Landspítala og þar er bæði starfsfólk og sjúklingar í yfirgnæfandi meirihluta íslenskumælandi.“
Hún bætir svo við í athugasemd síðar: „Athugasemd: Að sjálfsögðu brást Landspítali við af snerpu þegar málið var viðrað. Skýringin mun felast í fyrirkomulagi merkinga hjá aðila sem hefur það verk með höndum fyrir spítalann og verður nú lagfært.“
Þó Landspítalinn ætli að lagfæra þetta í framtíðinni þá sýnir þetta vel stöðu íslenskunnar. Hvernig meira að segja hið opinbera er farið að setja íslensku í annað sæti. Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku, segir um þetta mál einfaldlega: „Enn eitt dæmi um að opinberir aðilar setji enskuna í fyrsta sæti, á undan íslenskunni.“