Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í ágúst 2023, er 597,8 stig og hækkar um 0,34% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 494,5 stig og hækkar um 0,49% frá júlí 2023.
Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 5,8% (áhrif á vísitöluna 0,21%) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 4,5% (0,10%). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 8,4% (-0,19%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,7% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,6%.
Reiknuð húsaleiga, sem mælir í reynd eignaverð, lækkar um 0,23% í ágúst. Það jafngildir 2,7% verðhjöðnun á ársgrundvelli. Greidd húsleiga, sem mælir kostnað leigjenda, hækkar hins vegar um 0,50%, sem jafngildir 6,2% verðbólgu á ársgrundvelli.
Við gerð kjarasamninga fyrir jól vildu verslunar- og iðnaðarmenn fá inn ákvæði um að samningar yrðu lausir ef vísitala neysluverðs færi yfir 598. Hún er nú 597,8, hársbreidd undir þeim mörkum. Og enn fimm mánuðir eftir að samningunum.
Við gerð samninganna var vísitalan í 560,9. Verslunar- og iðnaðarmenn vildu því setja rautt strik við 6,6% hækkun verðlags, sem nú er komið fram. Mat þeirra var að umsamdar launahækkanir stæðu ekki undir meiri verðbólgu. Ef við reiknum með að verðbólguhraðinn í ágúst, 0,34% hækkun vísitölunnar, haldist út samningstímann munu laun skerðast um 1,7% meira á samningstímanum en verslunar- og iðnaðarmenn gátu sætt sig við.