Meiri brennisteinsmengun frá skemmtiferðaskipum eins fyrirtækis en öllum bílaflota Evrópu

Árið 2022 létu 63 skemmtiferðaskip fyrirtækisins Carnival Corp. frá sér meiri 43% meiri brennisteinsmengun en allir 291 milljón bílar Evrópuríkja samanlagt. Þetta kemur fram í rannsókn sem birt var í sumar, og samin á vegum Evrópusamtaka um flutninga og umhverfi (The European Federation for Transport and Environment).

Skip á vegum Carnival Corp. sigla um strendur Ameríku og Evrópu. Meðal áfangastaða sem fyrirtækið auglýsir í ferðum sínum eru Reykjavík, Akureyri, Grundafjörður og Seyðisfjörður.

Í frétt Business Insider um málið er tekið fram að góðu fréttirnar séu þó að þetta sé umtalsvert minni mengun en árið 2017, þegar skip fyrirtækisins létu frá sér tífalt meiri brennisteinsmengun en bílafloti Evrópu. Samdrátturinn helgast af reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem tóku gildi árið 2020, sem lækkuðu hámark brennisteins í skipaeldsneyti úr 3,5% í 0,5%.

Skemmtiferðaskipum fjölgar

Í fréttinni kemur fram að reglur stofnunarinnar hafi þó engin áhrif á fjölda skemmtiferðaskipa í umferð, sem fer vaxandi, á sama tíma og þau verja meiri tíma við hafnir Evrópu en fyrr og neyta meira eldsneytis. Þó að hvert tiltekið skip mengi minna, fyrir tilstilli nýju viðmiðanna, hefur samanlögð mengun þeirra aukist í samræmi við fjöldann og nýtingu skipanna: skemmtiferðaskip í Evrópu létu árið 2022 frá sér 9% meira af brennisteinsmengun samanlagt en þau gerðu árið 2017.

Góðar ástæður þykja bera til að draga úr brennisteinsmengun, sem hefur neikvæð áhrif á loftgæði og getur valdið heilsutjóni, ásamt því að valda súru regni. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2016 munu hinar nýju reglur IMO koma í veg fyrir yfir hálfa milljón ótímabærra dauðsfalla á árunum frá 2020 til 2025.

Aftur á móti hafa komið fram vísbendingar um að brennisteinsmengun vinni að nokkru leyti gegn hnatthlýnun, þar sem brennisteinsagnir í andrúmsloftinu endurvarpa sólargeislum út í geim og hafa þannig kælandi áhrif. Tilgátur hafa komið fram um að samdráttur í brennisteinsmengun sé einn þeirra þátta sem hafa valdið snarpari hækkun á yfirborðshita Atlantshafs nú í sumar en líkön af þróun hnatthlýnunar höfðu gert ráð fyrir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí