Misþyrmt á heimili sínu en fluttur í fangelsi, ekki sjúkrahús

„Glæpavæddir og sviptir grunnréttindum á sínum tíma, hjúpaðir þögn síðan þá, gætu Haraldur og Hans nú fengið – ef ekki uppreist æru sinnar – að minnsta kosti einhvers konar endurskoðun? Eða er það okkar dómur líka sá að þeir séu betur geymdir og gleymdir á öskuhaugum sögunnar?“ velti Tryggvi Rúnar Brynjarsson sagnfræðingur fyrir sér fyrir fyrirlestur um manndráp og mandrápstilraun á tveimur samkynhneigðum mönnum fyrir um hálfri öld.

„Ef við leggjum trúnað á skýrslur, aðgerðir og ákvarðanir íslenskra yfirvalda, sér í lagi lögreglu og dómstóla, þá kemur þessi kynning til með að fjalla um barnaníðing og nauðgara – viðurstyggilega aðila sem teljast því varla viðlits verðir,“ heldur Tryggvi Rúnar áfram.

„Í skjölum réttarvörslukerfisins birtast þessir menn hins vegar upphaflega sem þolendur. Einn þeirra, íslenskur ríkisborgari af þýsku bergi, rétt svo lifði af morðtilraun árið 1968. Sá síðari, einnig innflytjandi frá Þýskalandi, var myrtur árið 1981.“

Tryggvi Rúnar kemur að Rauða borðinu á Samstöðinni og segir frá þessum málum:

Misþyrmt á heimili sínu en fluttur í fangelsi, ekki sjúkrahús

Fyrra málið er alvarleg líkamsrása þriggja manna á Haraldur Ómar Vilhelmsson árið 1968. Málinu er lýst í MA-ritgerð Valgerðar Óskarsdóttur í þjóðfærði, en ritgerðin er rannsókn á sögu performance kyngervis samkynhneigðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag:

Haraldur Ómar Vilhelmsson, áður Harry Schrader, varð fyrir [árás] á heimili sínu árið 1968. Árásarmennirnir brutust inn til Haralds um miðja nótt og gengu í skrokk á honum fyrir „ónáttúrulegar kenndir hans“ að þeirra sögn. Kærasti Haralds kom honum til bjargar og kallaði til lögreglu. Þótt furðulegt megi virðast leitaði lögreglan ekki að árásarmönnunum heldur handtók Harald í staðinn fyrir brot á lögunum en kærasti Haralds var töluvert yngri en hann. Þrátt fyrir að Haraldur hefði hlotið meiðsl í árásinni neitaði lögreglan honum um aðhlynningu og var hann sendur í fangelsi í stað sjúkrahúss. Í fangelsinu var honum enn fremur neitað um aðstoð vegna sára sinni. Eftir að prestur á svæðinu og heimilislæknir Haralds höfðu afskipti af málinu var Haraldur loks fluttur á sjúkrahús þar sem hann fékk þá aðhlynningu sem hann þurfti á að halda. Af árásarmönnunum var það að segja að aðeins einn var ákærður. Atvikið náði athygli fjölmiðla en þeir voru þó áfjáðari í að fjalla um málið út frá „broti“ Haralds í stað þess að fjalla um hina fólskulegu árás. Vísir birti frétt þess eðlis að allir árásarmennirnir hefðu náðst en sagði jafnframt ástæða þess að þeir hefðu ráðist á Harald hefði verið vegna „kynvillu“ hans, en Haraldi var líka gefið að sök að hafa leitað á einn árásarmannanna. Blaðamaður bætti við að Haraldur hefði áður gerst sekur um „kynvillu“. Morgunblaðið birti svo svipaða frétt undir fyrirsögninni „Kynvilla orsökin“. Ljóst er að kynhneigð Haraldar skipti meira máli en árásin í öllum fréttaflutningi.

Hugsað strax að hann yrði að ganga frá Hans

Síðara málið er morðið Hans Wiedbusch, þýskur blómaskreytingamanni, árið 1981. Hans fannst látinn á heimili sínu við Grenimel. Hafði hann verið stunginn til bana með bæði hníf og skærum, en það fundust um 20 stungur á bringu hans og kvið. Skæri stóðu enn upp úr annarri augnatóft hans. Aðkoman var að sögn lögreglu hræðileg.

Gestur Guðjón Sigurbjörnsson gekkst við glæpnum og gaf Rannsóknarlögreglan út fréttatilkynningu um málsatvik byggð á játningu hans. Gestur var greindur með geðsjúkdóma og taugasjúkdóma og var ný kominn af geðdeild Landspítalans þegar morðið átti sér stað. Gestur og Hans höfðu hist á skemmtistaðnum Óðal við Austurvöll og endaði með því að Hans bauð Gesti með sér heim. Þegar þangað var komið drukku þeir áfengi og neyttu marijúana. Gestur kvaðst hafa orðið veikur og viljað fara heim. Hans taldi hann hins vegar á að gista og gaf honum tvær svefntöflur til að hjálpa honum að sofa.

Gestur sagðist hafa vaknað við það að Hans var að stunda við hann kynmök og að sér hafi brugðið mjög. Fór hann inn á salerni en þar fann hann skæri sem hann notaði meðal annars við morðið. Gestur sagði að hann hafði hugsað strax og hann vaknaði og varð var við það sem var að gerast, að hann yrði að ganga frá Hans.

Gestur var dæmdur sakhæfur og til 12 ára fangelsisvistar. Dómurinn reiknaði Gesti það til refsilækkunar að atburðurinn hafi ollið Gesti töluverðri geðshræringu og að ásetningur til manndráps hafi ekki verið fyrir hendi áður. Hins vegar fannst dómurunum að eftir að ásetningur myndaðist hafi aðfarirnar verið hrottalegar, það hafi ekkert komið í veg fyrir að Gestur klæddi sig og færi.

Vinir Hans andmæla tilkynningunni og umfjöllun um einkalíf hans

Umfjöllunin um morðið á hans var ekki eins einhliða og um manndrápstilraunina á Haraldi. Vinir Hans sendu t.d. tilkynningu í blöðin og var svona gengið frá henni í Alþýðublaðinu:

Eins og kunnugt er varð sá hörmulegi atburður hér í Reykjavík í síðustu viku, að Þjóðverji, búsettur hér á landi, Hans Wiedbusch var myrtur að heimili sínu. Fréttir af þessu máli komu í blöðum fyrir helgi og í gær barst Alþýðublaðinu eftirfarandi yfirlýsing frá nokkrum vinum og kunningjum hins myrta, sem finnst meðferð málsins hjá lögreglu og dagblöðum hafa gefið ranga mynd af persónu Wiedbusch.

Við erum nokkrir vinir og kunningjar Þjóðverjans Hans Wiedbusch, sem myrtur var aðfaranótt fimmtudags 17. september s.l., sem mótmælum hér með harðlega málsmeðferð og fréttatilkynningu rannsóknarlögreglu ríkisins og skrifum síðdegisblaða um þetta mál. Einnig viljum við koma á framfæri vitnisburði fólks, sem þekkti vel til Hans Wiedbusch. Okkur var vel kunnugt um að Hans var
„homosexual”, en það kom ekki i veg fyrir að hann átti sér stóran hóp vina, karla sem kvenna, fjölskyldna sem einhleypra, sem kunnu að meta manngildi hans. Hans var að okkar dómi sérstakt ljúfmenni, heiðarlegur,-, tilfinninganæmur og traustur vinur.

Þar sem hinn látni getur ekki varið sig sjálfur, krefjumst við þess í minningu hans að leiðrétt sé sú villandi mynd sem af honum hefur verið gefin í fjölmiðlum.

Rætt verður við Tryggva Rúnar um þessi tvö mál og merkingu þeirra við Rauða borðið í kvöld.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí