Ný útlendingalög og „fráleitar hugmyndir um fangabúðir“ bitna á viðkvæmustu hópum flóttafólks

„Ný útlendingalöggjöf og fráleitar hugmyndir stjórnvalda um fangabúðir bitna mest á jaðarsettustu og viðkvæmustu hópum flóttafólks: hinsegin fólki, konum og börnum,“ segir Vihjálmur Ósk Vilhjálms, starfsmaður Samtakanna ’78, í aðsendri grein í Vísi í dag.

Vilhjálmur segir 54 hinsegin manneskjur á flótta í virkri og lífsnauðsynlegri þjónustu hjá Samtökunum ’78. Staða þeirra sé flókin og erfið. Flest þeirra sem hingað flýja, „það fólk sem ég og samstarfsfólk mitt hjá Samtökunum ‘78 hittum, eru þolendur ofbeldis og ofsókna vegna hinseginleika síns.“

Fæst hinsegin fólk á flótta segir frá hinseginleika sínum í viðtölum við yfirvöld, segir Vilhjálmur. „Þau hafa lært það frá blautu barnsbeini að hinseginleiki þeirra sé óæskilegur og óvelkominn. Þau óttast refsingar frá yfirvöldum og/eða samfélaginu sem þau koma frá. Þau hafa því ærna ástæðu fyrir vantrausti sínu gagnvart yfirvöldum almennt og gefa í fyrstu ekkert upp um hinseginleika sinn, eitthvað sem gæti kostað þau lífið í upprunalandinu. Óttinn við að vera opinberlega hinsegin er djúpstæður og á rökum reistur.“

Fordómar í garð hinsegin fólks geti áfram mætt þeim þegar til Íslands er komið, meðal annars í samfélögum fólks frá upprunalandi hvers og eins. „Þar kemur túlkaþjónusta einnig til sögunnar en almennt koma túlkar gjarnan úr þeim samfélögum sem hinsegin fólk hefur flúið og eru sorglega mörg dæmi þess að hinsegin fólk á flótta verði fyrir fordómum frá túlkum. Traust túlkaþjónusta er því afar mikilvægur hlekkur í þjónustunni sem Samtökin ‘78 veita.“

Í fyrri umfjöllun Samstöðvarinnar hefur komið fram að 23 félagasamtök hafi skorað á yfirvöld að tryggja öryggi fólks á flótta og leysa úr stöðu þeirra sem nú hefur verið úthýst úr húsnæðisúrræði stjórnvalda, án nokkurra bjargræða. Félögunum hefur hins vegar fjölgað frá því að þau gerðu fyrst vart við sig í sameiningu og eru nú 29 talsins. Grein Vilhjálms lýkur á ítrekun áskorunar þeirra:

„Samtökin ‘78, ásamt tuttugu og átta öðrum félagasamtökum, skoruðu á dögunum á yfirvöld að tryggja öryggi fólks á flótta og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök. Sú áskorun stendur enn.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí