Heildarnýliðun á íslenskum vinnumarkaði frá 2012 til 2019 var að meirihluta í höndum innflytjenda: 56% þeirrar fjölgunar starfa sem varð á tímabilinu voru unnin af innflytjendum en 44% af innfæddum íbúum. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um stöðu efnahagsmála sem kynnt var í sumar.
Mikill munur var á þessum hlutföllum innan ólíkra starfsstétta. Á sviði framleiðslu matvæla og drykkja annars fyrir utan landbúnað og fiskveiðar, til dæmis, jókst hlutdeild innflytjenda aðeins lítillega (+0,8%) á sama tíma og hlutdeild innfæddra dróst lítillega saman (-0,9%). Í heildina fækkaði störfum lítillega á því sviði á tímabilinu. Störfum fækkaði einnig í landbúnaði, fiskiðnaði og í fjármála- og tryggingageiranum, og sama á við þar: innfæddum fækkaði um kringum 3% en innflytjendum fjölgaði um örfáa, undir einu prósenti.
Aðfluttir vinna yfir 70% nýrra starfa í byggingaiðnaði
Í öðrum geirum atvinnulífsins fjölgaði störfum, um allt frá 1,5% í upplýsinga- og samskiptatækni, yfir í 8,9% í byggingaiðnaði. Þau fjögur svið þar sem varð mest fjölgun starfa á tímabilinu eru flutningar og geymsla (+5,2%), fasteignageirinn (+6,6%), gisting og veitingar (7,5%) og byggingaiðnaður (um fyrrnefnd 8,9%). Gisti- og veitingaþjónusta skera sig úr þessum fjórum að því leyti hve hátt hlutfall innflytjenda var í nýliðun á sviðinu: 72,6% alls nýs starfsfólks í þeim geira voru innflytjendur. Það þýðir þó ekki að hlutfallið sé lágt í öðrum geirum, í byggingaiðnaði var það 38,1% en í flutningum og geymslu 32,5%.
Í skýrslunni segir að engin rannsókn hafi verið gerð á þeim áhrifum sem aukinn fjöldi innflytjenda hafi á meðallaun eða atvinnustig innfædds verkafólks á Íslandi sérstaklega. Hins vegar, segir þar, virðast innflytjendur að miklu leyti sinna láglaunastörfum og mætti því ætla að innfæddir færi sig á móti í störf sem krefjist meiri sérfærni, ekki síst tungumálafærni, sem innflytjendur skorti oft. Þá mætti ætla, segir þar, að hátt aðildarhlutfall að stéttarfélögum takmarki þau neikvæðu áhrif sem aukinn innflutningur gæti annars haft á launakjör.
Aðfluttir yngja landið
Í skýrslunni er vikið að því sem á ensku nefnist „prime age population“ eða íbúafjölda á besta aldri, og er miðað við aldursbilið 25 til 54 ára, aldur mestrar atvinnuþátttöku. Aukið streymi innflytjenda, segir þar, hefur haft mikilvæg lýðfræðileg áhrif á landið, þar sem erlendir ríkisborgarar eiga stóran hlut í íbúafjölda á besta aldri, og sporna þannig gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum hækkandi aldurs innfæddra.
Án innflytjenda myndi fjöldi íbúa á aldri til atvinnuþátttöku dragast saman um 5% fyrir árið 2050, samkvæmt útreikningum OECD. Þá segir í skýrslunni að gera megi ráð fyrir að landsframleiðsla Íslands verði 6,5% hærri árið 2030 og 10,4% hærri árið 2040, en hún væri ef innflytjendur væru ekki fleiri en brottfluttir.