Segir starfsfólk Katrínar bera ábyrgð á svæsnustu árásunum á Baldur og Höllu Hrund

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og forsetaframbjóðandi, segir nær allan rógburð í kosningabaráttunni hingað til hafa komið innan úr herbúðum Katrínar Jakobsdóttur. Steinunn nefnir í því samhengi sérstaklega einn starfsmann framboðsins Katrínar: Friðjón Friðjónsson. Hann er fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hann hefur einnig starfað sem almannatengill. En verkefnin virðast þó oftast vera í þágu flokksins. Nú eða fyrir opinberar stofnanir, ef flokkurinn er við völd. Steinunn segir hann í raun starfa við að níða skóinn af öðru fólki. Þetta fullyrðir Steinunn í pistli sem hún birtir á samfélagsmiðlum í dag.

Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar í heild sinni.

Þegar maður hefur engu að tapa en vill Íslandi allt.

Einn yfirmaður áróðursmaskínu Íslands Friðjón Friðjónsson er heldur betur lagður á stað í víking gegn frambjóðendum þeim sem ógna ,,landsmóðurinni“ fyrrverandi forsætisráðherra. Atlagan beinist helst að sómafólkinu, Höllu Hrund og Baldri því þau ógna þeirri sem finnst hún eiga sjálfsagt tilkall til forsetaembættisins.

Þegar talað er um skrímsladeildina í íslensku samfélagi er talað um það fjölmarga fólk sem tekur að sér óþrifaverk fyrir þá sem eiga og ráða. Þetta eru einfaldlega áróðursmeistarar, þeirra sem eiga og ráða. Þetta er fólk sem vílar ekki fyrir sér að níða skóinn af öðru fólki, að gera aðra tortryggilega og slá rýrð á fólk, málstaði og málefni.

DÆMI:

Ef framkvæma á náttúruspjöll í boði þeirra sem eiga og ráða, þá gera áróðursnillingarnir til dæmis náttúruverndarsinna hlægilega og kalla baráttu þeirra öfga. Ef einhver vill framkvæma eitthvað skemmtilegt í sínum bæ, fær viðkomandi höfnun eftir tiltal áróðursmeistara við glaðspilltar bæjar- og sveitastjórnir og gata einstaklingsins þar með gerð ófær.

Það mega bara sumir eiga eitthvað og gera eitthvað á Íslandi og það er ekki almenningur í landinu. Þessu hafið þið öll fundið fyrir.

Fyrir spillingarstörf af þessu tagi fá áróðursmeistararnir vel borgað og leggja metnað í. Áróðursmeistarar eru ómerkilegir rógberar sem vinna gegn hagsmunum almennings, lýðræðinu og eðlilegri upplýsingagjöf. Fólk sem vinnur við að eyðileggja mannorð annarra í þeim tilgangi einum að tryggja þeim sem eiga og ráða áframhaldandi eignarhald og völd.

Frambjóðandanum Baldri er núið því um nasir að hafa stjórnmálaskoðanir, eiga einkalíf, að vera samkynhneigður, kræst!, Viðtal fréttamannsins, Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum Morgunblaðsins við Baldur var frámunalega ógeðfellt og dónalegt og ljóst er að umræddur Stefán á engan að sem kennt hefur honum mannasiði og augljóslega er hann er á mála hjá áróðursmeisturunum og finnst það töff. Afskrifið Stefán. Svona vinna engir almennilegir blaðamenn.

Við megum örugglega eiga von á meira skítkasti af þessu tagi, þar sem einkalíf Baldurs verður dregið í svaðið og maki hans með. Ekki láta plata ykkur. Einkalíf Baldurs eða Felixar kemur okkur ekki hætishót við. Ekki leggja ykkur niður við að hlusta á slíkt.

Baldur er gáfaður og hlýr og vill landi okkar vel og er sannarlega ekki úr hópi þeirra sem eiga og ráða og þess vegna, gott forsetaefni.

Halla Hrund í starfi orkumálastjóra hefur barist fyrir hagsmunum landsmanna inni í Orkustofnun, barist fyrir rétti landsmanna til orku í eigin landi og barist fyrir því að land sé ekki glórulaust selt frá okkur svo aðrir megi virkja og græða og þar með gera okkur að eignalausu fólki sem allt þarf að kaupa, og þar með orkuna okkar!

Áróðursmeistararnir reyna nú að gera kosningastjóra hennar tortryggilega fyrir það eitt að hafa unnið fyrir Orkustofnun og þegið fyrir það laun!

Munið að það eru bara þeir sem eiga og ráða sem mega fá mannsæmandi laun. Við hin megum skrimta og aldrei fá launahækkanir.

Við skulum búa okkur undir meira úr sömu átt og muna að nýr forstjóri orkustofnunnar, Sara Lind Guðbergsdóttir er sama konan og eyðilagði Ríkisskaup að beiðni þeirra sem eiga og ráða.

Ríkiskaup, stofnunina sem hélt utan um eigur OKKAR. Sara Lind var nýlega ráðin inn í Orkustofnun í starf Höllu Hrundar fyrir atbeina þeirra sem eiga og ráða, (því ekkert veit hún um orkumál) mun án efa brátt koma með þá pöntuðu og lognu söguskýringu að Halla Hrund hafi í starfi orkumálastjóra alls ekki verið sú SEM HÚN ER.

Sara Lind vinkona Bjarna B. og eiginkona SpursmálaMbl-Stefáns er í vinnu fyrir þá sem eiga og ráða og finnst það geðveikt smart. Ekki trúa orði af því sem kemur úr þeirri átt. Sú kona er í eigu áróðursmeistaranna og gerir og framkvæmir eins og þeir sem eiga og ráða segja henni að gera.

Halla Hrund hefur hinsvegar sýnt að hún ber hag almennings fyrir brjósti, hún er ekki í eigu þeirra sem eiga og ráða og þess vegna gott forsetaefni.

Meira að segja ég frambjóðandi með svo lítið fylgi að það sést varla og ætti því engum að ógna fæ yfir mig drullu frá litlum pótentátum sem halda að þau séu að gera Katrínu gagn. Ég nenni ekki að hafa það eftir, það er svo vitlaust að það nær engu tali.

Á sama tíma og þessi ógeðfelldi hernaður fer fram er fólki ráðlagt að ráða í embættið ,,reynslumikla ,,óaðfinnanlega manneskju“ sem áróðursmeistarranir fá borgað fyrir að mæra. Sú manneskja er fyrrverandi forsætisráðherra. Sú sama og er með hæstlaunuðustu og óprúttnustu áróðursmeistarana í vinnu. Sú sama og notar gamla fb síðu með tugþúsundum fylgjenda sem stofnuð var fyrir hana sem stjórnmálamann en notar nú til að breiða út allt annað fagnaðarerindi.

En hver var ríkisstjórn fyrrverandi forsætisráðherra?

Ríkisstjórn fyrrverandi forsætisráðherra sem mærir sig nú helst af því að hafa staðið sig vel í Covid sem reyndar þríeykið tók þungan af.

Rifjum upp Covid sem hafði í för með sér skólaflótta og þunglyndi ungmenna, aukið heimilisofbeldi og áfengisneyslu, sorg og einsemd aldraðra og auðvitað dauða margra og langvarandi veikindi ennb fleiri sem varla má minnast á, dauða lítilla fyrirtækja og dauða einstaklingsframtaksins og peningaaustur ríkisfjármagns, peninganna okkar, til sérhagsmunaaðila

Á meðan Covid var sátu þeir sem eiga og ráða í stjórnlausri græðgisveislu. Í þeirri ríkisstjórnarveislu var samið um hvernig hægt væri að selja hvern blett, hverja þúfu á Íslandi, hvernig koma mætti á nýju gjafakvótakerfi á auðlindum Íslands, landi, orku, vatni og hafi.

Litla trú og ást hefur þetta fólk á löndum sínum.

Í ríkisstjórn fyrrverandi forsætisráðherra var líka unnið að því að veikja eftirlitsstofnanir landsins, losna við prinsippfólk, náttúruverndarfólk, hugsjónafólk og landsvini í embættismannaröðum og borga fyrirtækjum með fín erlend nöfn til að semja skýrslur uppfullar af rangfærslum og lygum til að búa í haginn fyrir tombóluna Ísland, sem þeir sem eiga og ráða standa fyrir.

Svona lítur réttlæti þeirra sem eiga og ráða út. Svona var samið um réttlætið í ríkisstjórn fyrrverandi forsætisráðherra og framkvæmdina eftrlét hún Bjarna Benediktssyni sem ekki getur hamið framkvæmdargleðina. Fegurrri samvinna hefur vart sést.

Forrétturinn hefur litið dagsins ljós, lagareldisfrumvarp VG og 100 M krafa Sýslumanns Vestfjarða á bóndann á Sandeyri sem vill ekki sjókvíeldi í landinu sínu og kærði það að kvíar væru upp komnar á landi hans í hans óþökk. 100 M skal hann reiða fram!

Sjókvíeldisfyrirtækin hinsvegar eru fyrir álitamál rukkuð um smápeninga. Allt er gert að hlúa að þeim sem eiga og ráða.

Áróðursmeistararnir vinna svo hörðum höndum að því að liðka fyrir, rægja fólk og meiða, gera ást á landi og nátttúru hlægilega, upphefja illvirlkja og ryðja brautina fyrir þá gráðugustu, frekustu og ríkustu.

Við eigum ekki þetta land, við höfum það að láni aðeins í stutta stund og höfum skyldur við þá sem eftir koma og á undan okkur gengu. Við börðumst fyrir landhelgi okkar! Ríkisstjórn fyrrverandi forsætisráðherra hefur með smánarlegum hætti vandlega ráðgert og planað út í ystu æsar að selja og gefa framtíðareigur allra sem hér búa og eftir okkur koma eins og einskis vert útsöludrasl. Að gera smákóngaveldið íslenska ríkara, og útlenda auðkýfinga enn ríkari og Íslendinga að öreigum.

Hvar er virðingin fyrir landinu, náttúrunni, verðmætum þeim sem þjóðin á? Ástin á komandi kynslóðum sem sannarlega mun detta eitthvað skynsamlegra í hug en að eyðileggja hér allt? Skoðið sögu þjóða þar sem gráðugar ríkisstjórnir hafa selt landnæði og auðlindir og gert landsmenn sína að öreigum í eigin landi. Dæmin eru um allar jarðir.

Forsetakosningarnar að þessu sinni eru hápólitískar, látið engan segja ykkur annað, því þeir sem eiga og ráða hafa lagt allt í sölurnar. Nú skal selja!

Það skiptir því máli hver verður hér forseti og hafnar þessu ráðabruggi. Við verðum að treysta hverjum sem við kjósum til forseta til að segja Nei. Stopp. Burt.

Því eins og fyrrverandi forsætisráðherra endurtekur nú í sífellu: Enginn er ómissandi!

Þetta er planið kæru vinir. Ég er yfirkomin af sorg, ekki yfir litlu fylgi mínu, heldur yfir því hvernig í pottinn er búið. Að okkar eigin landar vilji og ætli og séu að selja undan okkur landið og íslensku dýrðina, sjálfstæðið, réttinn til að komast af, sjálfsbjargarréttinn, landsréttinn, vatnsréttinn, orkuréttinn, réttinn til að draga fisk úr sjó og auðvitað réttinn til að lifa hér áfram sem sjálfstætt fólk. Megi það aldrei verða.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí