Ráðherrar ríkisstjórnarinnar þrástagast á að hér séu laun þau hæstu í heimi en sú er alls ekki raunin. Og það er auðvelt að afla heimilda sem sýna að svo er ekki. Tökum dæmi af Noregi.
Í Noregi eru ekki almenn lágmarkslaun en gefin eru út lágmarkslaun í tilteknum greinum. Þar eru t.d. lágmarkslaun fyrir ræstingarfólk 216,04 norskar krónur á tímann, sem gera 2.797,72 íslenskar krónur. Efling fékk ræstingarfólk hækkað um einn launaflokk í hörðum átökum í vetur, upp í 2.347,63 kr. á tímann. Launin í Noregi eru því 19,2% hærri en hér.
En þetta segir ekki alla söguna. Verðlag hérlendis er rúmlega 11% hærra en í Noregi. Miðað við verðlag eru norsku lágmarkslaunin fyrir ræstingu því 32,5% hærri en á Íslandi, 3.110,75 íslenskar krónur á tímann.
Miðað við fulla vinnu, 173,33 stundir á mánuði, jafngilda norsku launin því 539.186 kr. á mánuði á meðan að Eflingartaxtinn skilar 406.915 kr. Mismunurinn er rúmlega 132 þús. kr. á mánuði. Ef Efling vill gera kröfu um að jafna kjörin við norsk launafólk þarf félagið að krefjast 32,5% hækkunar.
Og munurinn á lægstu launum ræstingarfólks er ekki það versta. Munurinn er eilítið meiri á launum sérhæfðs fiskverkafólks og enn meiri hjá sérhæfðum byggingaverkamönnum.
Sjá má dæmi um launamuninn hér og í Noregi í nokkrum greinum í töflunni hér að neðan:
Starf | Norskt tímakaup | Í ísl. kr. | M.v. verðlag | Íslenskt tímakaup | Munur m.v. gengi | Munur m.v. verðlag |
---|---|---|---|---|---|---|
Hópferðabílstjórar | 202,62 | 2.623,93 | 2.917,52 | 2.501,83 | 4,9% | 16,6% |
Starfsfólk veitingahúsa | 190,79 | 2.470,73 | 2.747,18 | 2.334,09 | 5,9% | 17,7% |
Ræstingarfólk | 216,04 | 2.797,72 | 3.110,75 | 2.347,63 | 19,2% | 32,5% |
Sérhæft fiskvinnslufólk | 220,03 | 2.849,39 | 3.168,20 | 2.361,25 | 20,7% | 34,2% |
Sérhæft byggingav.fólk | 238,30 | 3.085,99 | 3.431,27 | 2.388,72 | 29,2% | 43,6% |