SA vilja undanþágu en stjórnvöld ekki – Losunarheimildir ETA greiðast til ríkissjóðs Íslands

Það hafa verið nokkur nýmæli að heyra ráðherra Sjálfstæðisflokks og aðra stjórnarliða bregðast við fyrirhuguðum álögum á skipageirann, í þágu loftslagsmála, án þess að taka undir tal um sérstöðu Íslands og þörf á undanþágum.

ETS (Emissions Trading System) er kerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir á mörgum vettvangi. Fyrirhugað er að ETS-kerfið nái til skipaiðnaðarins frá og með næsta ári og verði fyllilega innleitt árið 2026. Skipafyrirtækjum sem starfa í Evrópu verður þarmeð skylt að greiða gjald fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Gjaldið rennur þó ekki í sameiginlega sjóði ESB heldur beint í ríkissjóð þess ríkis þar sem hvert fyrirtæki starfar. Gjaldið sem íslensk skipafyrirtæki greiða innan kerfisins mun þannig fyrirsjáanlega renna í ríkissjóð Íslands, þegar þar að kemur.

Stjórnarliðar virðast taka þessari þróun með jafnaðargeði og raunar styðja hana. Hagsmunaaðiðlar í rekstri skipafyrirtækja taka henni aftur á móti ekki með öllu þegjandi og hljóðalaust. Morgunblaðið greindi frá því á miðvikudag að Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu segist furða sig á „sinnuleysi stjórnvalda í málinu“.

Utanríkisráðherra sér ekki ástæðu til undanþágu

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, sagði í viðtali við Morgunblaðið engar sérstakar aðstæður á Íslandi kalla á það að ETS-kerfið á skipaflutninga eigi ekki við um Ísland umfram önnur lönd“. Stjórnvöld geri því ráð fyrir að kerfið „verði tekið upp sem hluti af EES“.

Í umfjöllun Morgunblaðsins er haft eftir Vilhelm Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, að undanþágur hafi staðið „þjóðum eins og Íslandi“ til boða, en svo virðist sem stjórnvöld hafi látið málið sitja á hakanum. „Það er viðurkennt að tilskipunin geti lagst þyngra á sum lönd en önnur og þar eru einmitt talin upp eyríki, fámenn ríki og lönd sem eru mjög háð skipaflutningum og eiga ekki kost á lestarflutningum eða fljótabátum. Þetta á allt við um Ísland og þetta er búið að blasa við í dálítinn tíma,“ hafði miðillinn eftir honum.

Ráðherra svarar því til að þær kostnaðartölur sem lagðar hafa verið fram, 5-6 milljarðar á ári, séu „tiltölulega lágt hlutfall af heildar inn- og útflutningsverðmæti, þetta er undir einu prósenti sem mun svo dreifast, það er bara hluti af þessu sem eru neysluvörur.“ Hún segir að það að setja skipaflutninga undir ETS-kerfið feli „auðvitað“ í sér ný gjöld, en af þeim muni einnig koma tekjur í ríkissjóð, sem nýtist til að ná fram loftslagsmarkmiðum.

Markmið ESB um kolefnishlutleysi

Yfirlýst markmið Evrópusambandsins er að verða í heild sinni kolefnishlutlaust árið 2050, það er að binda að minnsta kosti jafn mikinn koltvísýring úr andrúmslofti og lönd álfunnar losa þangað. Veigamesti þátturinn í þeim áformum er að draga úr losun. Ætlunin með álögum ETS-kerfisins er að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun. Skipaflutningar eru að sögn Siglingaöryggisstofnunar Evrópu ábyrgir fyrir 13,5 prósent losunar gróðurhúsalofftegunda af völdum flutninga í Evrópu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí