Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að fátt bendi til annars en að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri muni enn eina ferðina hækka stýrivexti á morgun. Ragnar Þór segir í pistli sem hann birtir á Facebook að ekkert fari fyrir heiðarlegri umræðu um raunverulegar orsakir verðbólgu á Íslandi. „Verðbólgu sem er innflutt, verðbólga sem er hagnaðardrifin, verðbólga sem er klassísk eftirspurnarverðbólga drifin af ferðaþjónustunni og verðbólga vegna viðvarandi og sívaxandi húsnæðisskorti,“ segir Ragnar.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Ragnars í heild sinni.
Peningastefnunefnd Seðlabankans mun tilkynna um næstu stýrivaxtaákvörðun sína á morgun miðvikudag. Flestir greiningaraðilar, sem auðvitað koma úr röðum eða stuðningshópum fjármálakerfisins, spá hækkun á meginvöxtum bankans.
Það er auðvitað þeirra hagur og þeirra starf að fóðra bankana sem mest.
Það yrði fjórtanda hækkun stýrivaxta í röð en sú þrettánda kom í maí þegar stýrivextir hækkuði hressilega um 1,25%. Meginvextir bankans höfðu þá meira en tífaldast á tveggja ára tímabili en í mái 2021 voru þeir 0,75%.
Á síðasta fundi peningastefnunefndar beindust spjót Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að verkalýðshreyfingunni. Launafólk var vinsamlega beðið um að sýna hófsemi í kjaraviðræðum, sætta sig við stóraukin útgjöld og skertan kaupmátt og axla þannig ábyrgð á ástandinu fyrir hönd allra. Greiningaraðilar sem flestir starfa við hagsmunagæslu fyrir fjármálakerfið taka auðvitað undir þetta, að helsta ógnin við stöðugleika verði komandi kjarasamningar og græðgi vinnandi fólks.
Ekkert fer fyrir heiðarlegri umræðu um raunverulegar orsakir verðbólgu á Íslandi. Verðbólgu sem er innflutt, verðbólga sem er hagnaðardrifin, verðbólga sem er klassísk eftirspurnarverðbólga drifin af ferðaþjónustunni og verðbólga vegna viðvarandi og sívaxandi húsnæðisskorti.
Ekkert af þessu nær hrikaleg refsistefna seðlabankans í vaxtamálum að vinna á.
En líklega verður söngurinn um ábyrgð launafólks vinsælastur og Seðlabankinn mun svara kalli fjármagnsins frekar en að hlífa almenningi í landinu og vinna vinnuna sína.
Það er ótrúlega dapurlegt að af hafa svona litla trú á æðstu embættismönnum þjóðarinnar.