„Vísbendingar eru um að vöxtur innlendrar eftirspurnar hafi gefið enn frekar eftir á öðrum fjórðungi ársins. Hægari vöxtur á fyrri hluta ársins gerir það að verkum að nú er gert ráð fyrir 3,5% hagvexti á árinu öllu en ekki 4,8% líkt og spáð var í maí. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar lítið breyst,“ sefir í Peningamálum, riti peningastefnunefndar Seðlabankans.
Spáð er auknu atvinnuleysi: „Heildarvinnustundum fjölgaði nokkuð á öðrum fjórðungi ársins og atvinnuleysi hélt áfram að minnka. Það var 2,8% að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins og hefur ekki mælst svo lítið síðan haustið 2017. Þótt lausum störfum hafi heldur fækkað undanfarið eru áfram skýrar vísbendingar um töluverða spennu á vinnumarkaði. Grunnspáin gerir þó ráð fyrir að atvinnuleysi þokist smám saman upp í stig sem betur samræmist jafnvægi í þjóðarbúinu og verðstöðugleika.“
Seðlabankinn telur enga ástæðu til að draga niður spár sínar um verðbólgu: „Verðbólga hefur minnkað undanfarið og mældist 7,6% í júlí og er því komin á sama stig og hún var á í maí í fyrra. Hjöðnun verðbólgu í júlí litast hins vegar mjög af sterkum grunnáhrifum vegna mikilla verðhækkana á sama tíma í fyrra sem nú falla úr árssamanburðinum. Undirliggjandi verðbólga minnkaði einnig en þó hægar en mæld verðbólga og mældist 6,7%. Áhrif innfluttra verðhækkana hafa minnkað, m.a. vegna hækkunar á gengi krónunnar undanfarið, en innlendar verðhækkanir hafa reynst þrálátari. Launavísitala hækkaði um 10% milli ára á öðrum fjórðungi ársins og verð á dagvöru og almennri þjónustu hefur hækkað áfram. Þá hafa verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma lítið breyst þótt hjöðnun verðbólgu í júlí hafi verið umfram væntingar. Verðbólguhorfur til lengri tíma hafa því lítið breyst frá því í maí.“
Og bankinn segir að verðbólgan verði þrálát, hér heima sem annars staðar: „ Þótt framboðshlið heimshagkerfisins virðist að mestu komin í eðlilegt horf eftir áföll undanfarinna ára er sem fyrr mikil óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur og hversu kostnaðarsamt það mun reynast að tryggja aftur verðstöðugleika í helstu iðnríkjum. Það á ekki síður við hér á landi enda virðist kjölfesta verðbólguvæntinga hafa laskast. Verðbólga gæti því reynst þrálátari en nú er spáð sem kalla myndi á meiri samdrátt innlendra efnahagsumsvifa til að ná tökum á henni á ný.“
Lesa má Peningamál Seðlabankans hér: Peningamál 3/2023
Myndin er af peningastefnunefnd Seðlabankans: Ásgeir Jónsson formaður og Rannveig Sigurðardóttir staðgengill formanns sitja fremst, en að baki þeim standa Herdís Steingrímsdóttir, Gunnar Jakobsson og Ásgerður Ósk Pétursdóttir.