„Við höfum bent á aðrar leiðir og þegið skammir fyrir. Við höfum grátbeðið Sjálfstæðisflokkinn um að fara ekki gegn öllu því besta í stefnu sinni og fengið óblíðar móttökur vegna fullkominnar fylgispektar hans við VG. Við höfum varað við ótal mistökum og bent á aðrar leiðir,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í Mogga dagsins. „Nú síðast björguðum við flokknum, í bili, frá því að samþykkja aukna eftirgjöf fullveldis, loftslagsskatta til að draga úr samgöngum við landið og áformum um að setja alla landsmenn á námskeið til að kenna þeim Vinstri grænt hugarfar og tjáningu.“+
Í grein sinni hæðist Sigmundur Davíð að Sjálfstæðisflokknum, einkum að Jóni Gunnarssyni fyrrum dómsmálaráðherra og Óla Birni Kárasyni þingflokksformanni fyrir að tala um nauðsynlega breytingu á stjórnarstefnunni en draga svo skyndilega í land.
En greinin er líka einskonar tilboð til Sjálfstæðisflokksins, um að Miðflokkurinn komi inn í ríkisstjórnina í stað Vg. Sigmundur orðar þetta ekki beint, en þetta svífur yfir textanum eða kraumar undir.
Og í lok greinarinnar ávarpar Sigmundur Davíð Sjálfstæðisflokksfólk: „Er eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur? Eða líður ykkur best í faðmi þeirra sem fyrirlíta gömlu grunnstefnuna ykkar og þeirra sem segjast „bíða átekta“?“
Grein Sigmundur Davíð er dálítið óðamála og erfitt að endursegja innihald hennar. Lesendur geta reynt sjálfir að ráða í hvort þarna er um raunverulegt eða líklegt tilboð að ræða, eða hvort runnið sé upp fyrir Sigmundi Davíð að uppreisn villikattanna og fúlu karlana í Sjálfstæðisflokknum hafi aldrei verið neitt sem gæti haggað stefnu þessarar ríkisstjórnar.
Hér er greinin:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
Stokkhólmsheilkennið
Óli Björn Kárason skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrr í vikunni. Þar virtist fara þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins en ekki alnafni hans og tvífari, sem hefur reglulega skrifað afbragðsgóðar greinar í blaðið um mikilvægi þess að landinu sé stjórnað á allt annan hátt en nú er. Þ.e. um nauðsyn þess að gera allt það sem ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn eru ekki að gera.
Þingflokksformanninum virtist einkum gremjast að ég hefði leitast við að verja grunngildi Sjálfstæðisflokksins (og Framsóknarflokksins) og verið heldur gagnrýninn á Viðreisnarstefnuna (bæði hjá Viðreisn og Sjálfstæðisflokki). Væntanlega var greinin skrifuð „til heimabrúks“ eins og önnur nýleg grein.
Í fyrri heimabrúksgreininni hafði Óli Björn verið mjög gagnrýninn á ríkisstjórnina og var ekki einn um það. Ýmsir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum höfðu áttað sig á því að þeir sem voru þegar fyrir fjórum árum kallaðir „langþreyttir sjálfstæðismenn“ væru orðnir enn þreyttari og tímabært að klukka þá. Við fengum að heyra að tími málamiðlana væri liðinn og þetta gæti ekki haldið svona áfram.
Ekki liðu þó margir dagar áður en þingflokksformaðurinn skrifaði hina nýju grein, sem snerist nánast eingöngu um mikilvægi málamiðlana í núverandi ríkisstjórn auk athugasemda við að minnt væri á grunngildi Sjálfstæðisflokksins.
Áður höfðu aðrir tekið sambærilegan snúning. Þannig tók það fyrrverandi dómsmálaráðherra aðeins um 21 klukkustund að fara frá því að segja „samstarfið er komið í miklar ógöngur og það blasir við öllum að ekki verður haldið áfram að óbreyttu“ (mbl.is) í að segja að engar líkur séu á að Sjálfstæðisflokkurinn slíti stjórnarsamstarfinu (ruv.is).
Aftur að grein þingflokksformannsins
Formaðurinn fjallaði um mikilvægi þess að „mynda starfhæfa samsteypustjórn sem hefur pólitískt þrek og brotnar ekki þegar á móti blæs. Þar skiptir forystufólk og sterkir innviðir mestu.“ Þetta er hárrétt en í ljósi þess að greinin virtist eiga að fjalla um nútíma-Sjálfstæðisflokkinn kom setningin mér nokkuð á óvart, svona í ljósi reynslunnar.
Greinarhöfundur virtist argur út í Stöð 2 fyrir að birta hvatningu mína til Sjálfstæðisflokksins sem fyrstu frétt. Það er skiljanlegt, enda hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins amast mjög út í eigið bakland fyrir gagnrýni og útskýrt að best sé að leysa vandann með því að þegja um hann. Helst að láta sig hverfa eins og forystan hefur sýnt með góðu fordæmi.
En svo hvarflaði að mér að greinin væri e.t.v. skrifuð í háði og ég skammaðist mín í augnablik fyrir „fattleysið“. Það var þegar ég las að gagnrýni á flokkinn væri góð af því þá væri hann ekki gleymdur: „Eins og oftast snýst flest um Sjálfstæðisflokkinn, sem er þungamiðja stjórnmálaumræðunnar – akkerið sem heldur í ólgusjó.“ Akkerið hefur e.t.v. ekki hreyfst en keðjan slitnaði fyrir nokkrum árum og mörg hundruð sjómílum.
Næst kom eitthvað um að gagnrýni úr flokknum væri nauðsynleg og mikilvægt að á hana væri hlustað. Og það í grein sem snerist um að nýleg gagnrýni á flokkinn væri til óþurftar og mikilvægi þess að skilja að hann þyrfti að fá að gefa eftir stefnu sína til að vera við völd.
Svo hélt kaldhæðnin áfram: „Hitt skal játað að við sjálfstæðismenn höfum lúmskt gaman af því hve andstæðingum okkar gengur illa að skilja hvernig samkeppni hugmynda og hörð skoðanaskipti leysa úr læðingi kraft Sjálfstæðisflokksins.“ Hvaða samkeppni hugmynda? Er átt við landsfund þar sem hópur manna sem hafði náð fram smávægilegum bótum á útlendingastefnu flokksins var lítillækkaður og látið kjósa aftur til að staðfesta stefnu sem var enn Samfylkingarlegri en stefna Samfylkingarinnar? Rökstutt með því að annars liti flokkurinn illa út (ekki nógu Samfylkingarlega?).
Já, og hvaða „hörðu skoðanaskipti“? Er átt við það þegar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði harðorða grein til að gagnrýna matvælaráðherra? Greinina sem ráðherrann (og formaður Sjálfstæðisflokksins) sögðu vera til heimabrúks. Eða þegar forsætisráðherrann gerði grín að flokknum fyrir ærslaganginn og sagði að hann þyrfti að leysa úr sínum málum sjálfur, með þeim afleiðingum að gagnrýnendur fengu skilaboð um að draga í land?
Loks var eitthvað um að markmið Sjálfstæðisflokksins væri að „vinna að framgangi hugsjóna og hafa áhrif á framtíð samfélagsins“, en það væri erfitt að ná slíkum hugsjónum fram í samsteypustjórn. Í framhaldi af því kom hin gullvæga setning: „Einmitt þess vegna höfum við sjálfstæðismenn þurft að rækta hæfileikann til að koma til móts við andstæð sjónarmið án þess að missa sjónar á hugsjónum.“
Þetta er sérstæð setning en er hún sönn? Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi leitt mestu útgjaldaaukningu ríkissjóðs frá landnámi, skattar og gjöld hafa hækkað, verðbólga (og fyrir vikið vextir) hefur snarhækkað, útlendingamál eru í tómu tjóni (sjá magnaða grein Sigríðar Á. Andersen um það), Nýja Framsókn hefur fengið að leika lausum hala og hver einasta dellukenning VG hefur verið rekin áfram af hörku af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
Greiningin
Í sálfræði kallast þetta víst Stokkhólmsheilkennið. Ég er þó ekki nógu vel að mér í faginu til að vita hvort hugtakið á við þegar „gíslarnir“ afsaka ekki aðeins framferði yfirboðaranna heldur reyna að eigna sér stefnu þeirra (eins og ítrekað hefur gerst). Eða þegar þeir taka að sér að bjarga stefnu andstæðinga sem þeir ættu að vera algjörlega óháðir. Hér má augljóslega vísa í borgarlínuna svo kölluðu. Aðalkosningaloforð Samfylkingarinnar í hálf-gjaldþrota Reykjavík í tvennum kosningum. Loforð sem þingflokkur sjálfstæðismanna tók að sér að fjármagna með óútfylltri ávísun og einhverjum verðmætustu eignum ríkisins.
Hvað kallast það svo þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mestar áhyggjur af þeim sem minna þá á eigin stefnu en leggja þess í stað áherslu á mikilvægi þess að laga sig að stefnu VG (og Nýju Framsóknar)? Þingflokkur sem er búinn að laga sig svo vel að umbúðamennsku samtímans að hann er farinn að útskýra að meðvirkni sé í raun dyggð.
Niðurstaðan
Við höfum bent á aðrar leiðir og þegið skammir fyrir. Við höfum grátbeðið Sjálfstæðisflokkinn um að fara ekki gegn öllu því besta í stefnu sinni og fengið óblíðar móttökur vegna fullkominnar fylgispektar hans við VG. Við höfum varað við ótal mistökum og bent á aðrar leiðir. Nú síðast björguðum við flokknum, í bili, frá því að samþykkja aukna eftirgjöf fullveldis, loftslagsskatta til að draga úr samgöngum við landið og áformum um að setja alla landsmenn á námskeið til að kenna þeim Vinstri grænt hugarfar og tjáningu.
Er eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur? Eða líður ykkur best í faðmi þeirra sem fyrirlíta gömlu grunnstefnuna ykkar og þeirra sem segjast „bíða átekta“?