Sigmundur Davíð býður Miðflokkinn fram sem arftaka Vg í ríkisstjórn

„Við höf­um bent á aðrar leiðir og þegið skamm­ir fyr­ir. Við höf­um grát­beðið Sjálf­stæðis­flokk­inn um að fara ekki gegn öllu því besta í stefnu sinni og fengið óblíðar mót­tök­ur vegna full­kom­inn­ar fylgispekt­ar hans við VG. Við höf­um varað við ótal mis­tök­um og bent á aðrar leiðir,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í Mogga dagsins. „Nú síðast björguðum við flokkn­um, í bili, frá því að samþykkja aukna eft­ir­gjöf full­veld­is, lofts­lags­skatta til að draga úr sam­göng­um við landið og áform­um um að setja alla lands­menn á nám­skeið til að kenna þeim Vinstri grænt hug­ar­far og tján­ingu.“+

Í grein sinni hæðist Sigmundur Davíð að Sjálfstæðisflokknum, einkum að Jóni Gunnarssyni fyrrum dómsmálaráðherra og Óla Birni Kárasyni þingflokksformanni fyrir að tala um nauðsynlega breytingu á stjórnarstefnunni en draga svo skyndilega í land.

En greinin er líka einskonar tilboð til Sjálfstæðisflokksins, um að Miðflokkurinn komi inn í ríkisstjórnina í stað Vg. Sigmundur orðar þetta ekki beint, en þetta svífur yfir textanum eða kraumar undir.

Og í lok greinarinnar ávarpar Sigmundur Davíð Sjálfstæðisflokksfólk: „Er eitt­hvað fleira sem við get­um gert fyr­ir ykk­ur? Eða líður ykk­ur best í faðmi þeirra sem fyr­ir­líta gömlu grunn­stefn­una ykk­ar og þeirra sem segj­ast „bíða átekta“?“

Grein Sigmundur Davíð er dálítið óðamála og erfitt að endursegja innihald hennar. Lesendur geta reynt sjálfir að ráða í hvort þarna er um raunverulegt eða líklegt tilboð að ræða, eða hvort runnið sé upp fyrir Sigmundi Davíð að uppreisn villikattanna og fúlu karlana í Sjálfstæðisflokknum hafi aldrei verið neitt sem gæti haggað stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Hér er greinin:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
Stokkhólmsheilkennið

Óli Björn Kára­son skrifaði áhuga­verða grein í Morg­un­blaðið fyrr í vik­unni. Þar virt­ist fara þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins en ekki al­nafni hans og tvífari, sem hef­ur reglu­lega skrifað af­bragðsgóðar grein­ar í blaðið um mik­il­vægi þess að land­inu sé stjórnað á allt ann­an hátt en nú er. Þ.e. um nauðsyn þess að gera allt það sem rík­is­stjórn­in og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn eru ekki að gera.

Þing­flokks­for­mann­in­um virt­ist einkum gremj­ast að ég hefði leit­ast við að verja grunn­gildi Sjálf­stæðis­flokks­ins (og Fram­sókn­ar­flokks­ins) og verið held­ur gagn­rýn­inn á Viðreisn­ar­stefn­una (bæði hjá Viðreisn og Sjálf­stæðis­flokki). Vænt­an­lega var grein­in skrifuð „til heima­brúks“ eins og önn­ur ný­leg grein.

Í fyrri heima­brúks­grein­inni hafði Óli Björn verið mjög gagn­rýn­inn á rík­is­stjórn­ina og var ekki einn um það. Ýmsir áhrifa­menn í Sjálf­stæðis­flokkn­um höfðu áttað sig á því að þeir sem voru þegar fyr­ir fjór­um árum kallaðir „langþreytt­ir sjálf­stæðis­menn“ væru orðnir enn þreytt­ari og tíma­bært að klukka þá. Við feng­um að heyra að tími mála­miðlana væri liðinn og þetta gæti ekki haldið svona áfram.

Ekki liðu þó marg­ir dag­ar áður en þing­flokks­formaður­inn skrifaði hina nýju grein, sem sner­ist nán­ast ein­göngu um mik­il­vægi mála­miðlana í nú­ver­andi rík­is­stjórn auk at­huga­semda við að minnt væri á grunn­gildi Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Áður höfðu aðrir tekið sam­bæri­leg­an snún­ing. Þannig tók það fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra aðeins um 21 klukku­stund að fara frá því að segja „sam­starfið er komið í mikl­ar ógöng­ur og það blas­ir við öll­um að ekki verður haldið áfram að óbreyttu“ (mbl.is) í að segja að eng­ar lík­ur séu á að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn slíti stjórn­ar­sam­starf­inu (ruv.is).

Aft­ur að grein þing­flokks­for­manns­ins

Formaður­inn fjallaði um mik­il­vægi þess að „mynda starf­hæfa sam­steypu­stjórn sem hef­ur póli­tískt þrek og brotn­ar ekki þegar á móti blæs. Þar skipt­ir for­ystu­fólk og sterk­ir innviðir mestu.“ Þetta er hár­rétt en í ljósi þess að grein­in virt­ist eiga að fjalla um nú­tíma-Sjálf­stæðis­flokk­inn kom setn­ing­in mér nokkuð á óvart, svona í ljósi reynsl­unn­ar.

Grein­ar­höf­und­ur virt­ist arg­ur út í Stöð 2 fyr­ir að birta hvatn­ingu mína til Sjálf­stæðis­flokks­ins sem fyrstu frétt. Það er skilj­an­legt, enda hafa for­ystu­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins am­ast mjög út í eigið bak­land fyr­ir gagn­rýni og út­skýrt að best sé að leysa vand­ann með því að þegja um hann. Helst að láta sig hverfa eins og for­yst­an hef­ur sýnt með góðu for­dæmi.

En svo hvarflaði að mér að grein­in væri e.t.v. skrifuð í háði og ég skammaðist mín í augna­blik fyr­ir „fatt­leysið“. Það var þegar ég las að gagn­rýni á flokk­inn væri góð af því þá væri hann ekki gleymd­ur: „Eins og oft­ast snýst flest um Sjálf­stæðis­flokk­inn, sem er þunga­miðja stjórn­má­laum­ræðunn­ar – akk­erið sem held­ur í ólgu­sjó.“ Akk­erið hef­ur e.t.v. ekki hreyfst en keðjan slitnaði fyr­ir nokkr­um árum og mörg hundruð sjó­míl­um.

Næst kom eitt­hvað um að gagn­rýni úr flokkn­um væri nauðsyn­leg og mik­il­vægt að á hana væri hlustað. Og það í grein sem sner­ist um að ný­leg gagn­rýni á flokk­inn væri til óþurft­ar og mik­il­vægi þess að skilja að hann þyrfti að fá að gefa eft­ir stefnu sína til að vera við völd.

Svo hélt kald­hæðnin áfram: „Hitt skal játað að við sjálf­stæðis­menn höf­um lúmskt gam­an af því hve and­stæðing­um okk­ar geng­ur illa að skilja hvernig sam­keppni hug­mynda og hörð skoðana­skipti leysa úr læðingi kraft Sjálf­stæðis­flokks­ins.“ Hvaða sam­keppni hug­mynda? Er átt við lands­fund þar sem hóp­ur manna sem hafði náð fram smá­vægi­leg­um bót­um á út­lend­inga­stefnu flokks­ins var lít­il­lækkaður og látið kjósa aft­ur til að staðfesta stefnu sem var enn Sam­fylk­ing­ar­legri en stefna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar? Rök­stutt með því að ann­ars liti flokk­ur­inn illa út (ekki nógu Sam­fylk­ing­ar­lega?).

Já, og hvaða „hörðu skoðana­skipti“? Er átt við það þegar þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins skrifaði harðorða grein til að gagn­rýna mat­vælaráðherra? Grein­ina sem ráðherr­ann (og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins) sögðu vera til heima­brúks. Eða þegar for­sæt­is­ráðherr­ann gerði grín að flokkn­um fyr­ir ærslagang­inn og sagði að hann þyrfti að leysa úr sín­um mál­um sjálf­ur, með þeim af­leiðing­um að gagn­rýn­end­ur fengu skila­boð um að draga í land?

Loks var eitt­hvað um að mark­mið Sjálf­stæðis­flokks­ins væri að „vinna að fram­gangi hug­sjóna og hafa áhrif á framtíð sam­fé­lags­ins“, en það væri erfitt að ná slík­um hug­sjón­um fram í sam­steypu­stjórn. Í fram­haldi af því kom hin gull­væga setn­ing: „Ein­mitt þess vegna höf­um við sjálf­stæðis­menn þurft að rækta hæfi­leik­ann til að koma til móts við and­stæð sjón­ar­mið án þess að missa sjón­ar á hug­sjón­um.“

Þetta er sér­stæð setn­ing en er hún sönn? Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur í þessu rík­is­stjórn­ar­sam­starfi leitt mestu út­gjalda­aukn­ingu rík­is­sjóðs frá land­námi, skatt­ar og gjöld hafa hækkað, verðbólga (og fyr­ir vikið vext­ir) hef­ur snar­hækkað, út­lend­inga­mál eru í tómu tjóni (sjá magnaða grein Sig­ríðar Á. And­er­sen um það), Nýja Fram­sókn hef­ur fengið að leika laus­um hala og hver ein­asta dellu­kenn­ing VG hef­ur verið rek­in áfram af hörku af hálfu Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Grein­ing­in

Í sál­fræði kall­ast þetta víst Stokk­hólms­heil­kennið. Ég er þó ekki nógu vel að mér í fag­inu til að vita hvort hug­takið á við þegar „gísl­arn­ir“ af­saka ekki aðeins fram­ferði yf­ir­boðaranna held­ur reyna að eigna sér stefnu þeirra (eins og ít­rekað hef­ur gerst). Eða þegar þeir taka að sér að bjarga stefnu and­stæðinga sem þeir ættu að vera al­gjör­lega óháðir. Hér má aug­ljós­lega vísa í borg­ar­lín­una svo kölluðu. Aðal­kosn­ingalof­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í hálf-gjaldþrota Reykja­vík í tvenn­um kosn­ing­um. Lof­orð sem þing­flokk­ur sjálf­stæðismanna tók að sér að fjár­magna með óút­fylltri ávís­un og ein­hverj­um verðmæt­ustu eign­um rík­is­ins.

Hvað kall­ast það svo þegar þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa mest­ar áhyggj­ur af þeim sem minna þá á eig­in stefnu en leggja þess í stað áherslu á mik­il­vægi þess að laga sig að stefnu VG (og Nýju Fram­sókn­ar)? Þing­flokk­ur sem er bú­inn að laga sig svo vel að umbúðamennsku sam­tím­ans að hann er far­inn að út­skýra að meðvirkni sé í raun dyggð.

Niðurstaðan

Við höf­um bent á aðrar leiðir og þegið skamm­ir fyr­ir. Við höf­um grát­beðið Sjálf­stæðis­flokk­inn um að fara ekki gegn öllu því besta í stefnu sinni og fengið óblíðar mót­tök­ur vegna full­kom­inn­ar fylgispekt­ar hans við VG. Við höf­um varað við ótal mis­tök­um og bent á aðrar leiðir. Nú síðast björguðum við flokkn­um, í bili, frá því að samþykkja aukna eft­ir­gjöf full­veld­is, lofts­lags­skatta til að draga úr sam­göng­um við landið og áform­um um að setja alla lands­menn á nám­skeið til að kenna þeim Vinstri grænt hug­ar­far og tján­ingu.

Er eitt­hvað fleira sem við get­um gert fyr­ir ykk­ur? Eða líður ykk­ur best í faðmi þeirra sem fyr­ir­líta gömlu grunn­stefn­una ykk­ar og þeirra sem segj­ast „bíða átekta“?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí