Í ályktun stjórna Sósíalistaflokkurinn er ríkisstjórnin hvött til að horfast í augu við að hún hefur misst traust þjóðarinnar. „Við slíkar aðstæður á ríkisstjórn að víkja og gefa almenningi kost á að velja sér ný stjórnvöld. Þannig virkar lýðræðið. Ríkisstjórn sem ekki nýtur trausts veldur miklum skaða. Sósíalistaflokkurinn krefst þess að boðað verði til þingkosninga sem allra fyrst,“ segir í ályktun sameiginlegs fundar framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins.
„Í lýðræðissamfélagi er mikilvægt að stjórnvöld stjórni í takt við vilja lýðsins, almennings,“ segir í ályktuninni. „Núverandi ríkisstjórn fer gegn vilja mikils meirihluta almennings í svo til öllum mikilvægum málum. Hún reisir ekki húsnæði þegar almenningur krefst þess. Hún selur hluti ríkisins í bönkum þegar almenningur vill það ekki. Ríkisstjórnin styrkir kvótakerfið í sessi þótt almenningur sé andsnúinn kvótakerfi. Almenningur vill stórauka framlög til heilbrigðismála en ríkisstjórnin sinnir því ekki. Almenningur vill réttlátt skattkerfi þar sem hin efnameiri leggja hlutfallslega meira til samneyslunnar en ríkisstjórnin ver skattkerfi nýfrjálshyggjunnar, þar sem skattbyrði var létt af hinum ríku en skattbyrði almennings og einkum hinna fátækustu var aukin.“
Síðan segir: „Þetta er staðan í öllum helstu málaflokkum. Í stað þess að fara að vilja mikils meirihluta almennings rekur ríkisstjórnin hagsmuni hinna fáu, ríku og valdamiklu.“
„Meðan almenningur upplifði ógn í heimsfaraldri treysti meirihluti hans á að ríkisstjórnin myndi verja sig fyrir hættunni. Þegar hættan leið hjá kom í ljós hvaða afleiðingar það hefur fyrir ríkisstjórn að fara gegn almannavilja í svo til öllum málum. Traust á ríkisstjórninni hrundi. Ríkisstjórnin mun ekki endurvinna það. Ríkisstjórnin situr í dag við völd í óþökk mikils meirihluta almennings,“ segir í ályktun stjórnanna.
Sem endar svo: „Við slíkar aðstæður á ríkisstjórn að víkja og gefa almenningi kost á að velja sér ný stjórnvöld. Þannig virkar lýðræðið. Ríkisstjórn sem ekki nýtur trausts veldur miklum skaða. Sósíalistaflokkurinn krefst þess að boðað verði til þingkosninga sem allra fyrst.“