Spyr hvort Seðlabankinn eigi aðeins að þjóna efnameiri helmingi þjóðarinnar?

„Er einhvers staðar skráð í reglubók seðlabankans að hann eigi fyrst og fremst að þjóna efnameiri helmingi þjóðarinnar?“ spyr Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu eftir vaxtahækkun Seðlabankans.

Stefán skrifar grein á Vísi þar sem hann andmælir þessari hækkun og bendir á hversu mjög á skjön hún er við vaxtaákvarðanir seðlabanka í nágrannalöndunum.

Stefán birtir þetta súlurit:

Og bendir á að Evru-löndin séu með 4,25% stýrivexti og hin Norðurlöndin á bilinu 3,35% til 4,25%. Bandaríkin séu með 5,5% og Bretland 5,25%.

„Það eru einungis lönd í Austur-Evrópu sem hafa nú hærri stýrivexti en Ísland, ýmist lönd á mun lægra hagsældarstigi en Ísland eða stríðshrjáð lönd eins og Úkraína og Rússland – og svo Tyrkland sem býr við óðaverðbólgu,“ skrifar Stefán.

Og heldur áfram: „Er þetta vegna þess að verðbólga sé svo miklu meiri á Íslandi en í helstu grannríkjunum? Nei, hreint ekki. Hún er til dæmis yfir 9% í Svíþjóð þó stýrivextir þar séu einungis um 3,75%. Algengast er enn að stýrivextir séu lægri en verðbólgustigið í Evrópu.

Þessi samanburður sýnir að Seðlabanki Íslands er á mjög sérstakri vegferð – sem virðist byggja á öfgafullum markmiðum um að draga niður kjör þeirra sem eru með húsnæðisskuldir. Það bitnar mest á þeim tekjulægri, yngra fólki á húsnæðismarkaði, einstæðum foreldrum og innflytjendum. Auk þess dregur þetta úr bráðnauðsynlegum nýbyggingum íbúða fyrir þá tekjulægri. Þetta er bæði ósanngjarnt og óskynsamlegt.

Seðlabankinn segir að rökin fyrir síðustu hækkunum stýrivaxtanna sé of mikil eftirspurnarþensla í hagkerfinu – of mikil neysla. Samt hefur einkaneysla þegar hætt að aukast og húsnæðismarkaðurinn er nú lokaður fyrir efnaminni fjölskyldum.

Tæpur helmingur þjóðarinnar á nú í erfiðleikum við að ná endum saman. Er það fólkið sem heldur uppi eftirspurnarþenslu í hagkerfinu?

Nei, öðru nær! Það er efnameiri helmingur þjóðarinnar og ofvöxtur ferðaþjónustunnar sem halda uppi eftirspurnarþenslu. Stýrivaxtahækkunin hefur lítil áhrif á það fólk og þau fyrirtæki, vegna rúmrar kaupgetu og góðrar eignarstöðu.

Rökin á bak við hina öfgafullu stefnu Seðlabanka Íslands virðast því vera þessi: „Nú er efnameiri helmingur þjóðarinnar að eyða of miklu (bæði heima og erlendis) og skal þá draga niður kjör efnaminni helmingsins svo um munar.“

Og hvað ferðaþjónustuna snertir virðist kenningin vera þessi: „Nú er ferðaþjónustan að vaxa alltof hratt, með of miklum innflutningi nýs vinnuafls – og þá skal láta hana í friði, jafnvel viðhalda örvandi skattaafsláttum“.

Hvers vegna kemur ekki til greina að beita öðrum aðgerðum sem raunverulega draga niður umframeftirspurnina hjá þeim sem leika lausum hala?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí