Spyr hvort við eigum að skjóta Kára Stefánsson?

Heilbrigðismál 5. ágú 2023

„Eigum við að skjóta Kára Stefánsson eða ættum við heldur að skjóta okkur sjálf?“ spyr Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona í upphafi pistils á Facebook þar sem hún ræðir bólusetningar.

„Engin var dreginn á hárinu í bólusetningar hér á landi þótt tilmæli heilbrigðisyfirvalda á heimsvísu væru öll í þá áttina. Margir völdu að þiggja ekki bólusetningar. Mér dettur ekki í hug eina mínútu að Kári, sem er vinur minn, hafi visvítandi tekið þátt í að valda manneskjum skaða í stórum stíl eða í auðgunarskyni. Hann eins og margir aðrir læknar gerðu það sem þeir töldu rétt að gera miðað við þær upplýsingar sem þeir töldu þá áreiðanlegar,“ skrifar Steinunn.

Steinunn Ólína segist hafa fundarstýrt ráðstefnu hjá Geðhjálp í vor – niðurstaða þeirrar ráðstefnu dregur hún saman úr því sem haldbærast var úr efni fyrirlesara: „Vitað er að það hjálpar fólki með geðrænan vanda að vera úti í náttúrunni og geta deilt reynslu sinni með þeim sem hafa liðið fyrir sömu kvilla. SSRI lyfin eru í raun gagnslaus og valda hugsanlega breytingum til frambúðar á heilastarfsemi okkar.“

„Þjóðin getur sett sig í lögsóknargírinn!“ skrifar Steinunn Ólína.

„Við vitum að læknavísindin hafa í leit sinni að lækningum oft fálmað ut í myrkrið. Kári gengst við því að vita nú betur – vita nú – og það finnst mér einhvers virði,“ heldur hún áfram.

„Ég legg ekki það traust til nokkurrar manneskju að ákveða hvað sé mér fyrir bestu – ég afsala mér aldrei þeirri ábyrgð – því ábyrgðin hérlendis var á endanum í höndum hvers og eins. Ég valdi að fara i tvær bólusetningar og sleppti þeirri þriðju,“ skrifar Steinunn. „Ég var nógu skelfd í upphafi til að fara í bólusetningu – ég valdi það. Það var ekki áróður Kára sem hvatti mig til þess heldur ótti við dauðann eða öllu heldur ótti við að deyja frá föðurlausum börnum. Þegar að þriðju sprautu kom taldi ég og þetta var bara gut tilfinning að ég ætti ekki að fara í fleiri – þá fannst mér ég ekki þurfa þess með. Kannski hafði ég bara minni áhyggjur af því að ungviðið gæti ekki spjarað sig án mín.“

Steinunn segir að þá hafi verið komnar fram upplýsingar um að nauðsyn bólusetninga allra aldurshópa væri hugsanlega umdeilanleg og eins og oft áður hefðu læknavísindin farið offari í viðleitni sinni til að bjarga mannslífum. „Ég valdi að fara ekki í fleiri. Ég get ekki lagst í kenningafræði eða samsærisrannsóknir – ég hef ekki áhuga á þeim – ég bara veit að það er fjandanum erfiðara að taka ábyrgð á eigin gjörðum – og enn erfiðara að standa með sjálfum sér haldi maður að ákvarðanir þær sem maður hefur tekið séu rangar, án þess að finna til blóraböggul til að hengja vandan á. En það þarf hver manneskja að gera ef hún vill vera heil gagnvart sjálfum sér. I told you so fólkið er ekkert að gera nema upphefja sjálft sig og pússa sitt eigið egó. Það gagnast engum ekki einu sinni þeim sjálfum. Nægar eru geðbólgurnar!“

„Mér hugnast illa þegar fólk er tilbúið til að afsala sér sjálfsábyrgð og finna til sökudólga í friðþægingarskyni,“ skrifar Steinunn. „Læknavísindin eru lifandi eins og listin – lotning fyrir þeim er býsna mikil þrátt fyrir að við vitum að margt sem gert er í lækningaskyni er bara leit í myrkri. Fólk ætti í ríkara mæli að treysta innsæi sínu – margir gerðu það í trássi við skoðanir og tilmæli annara. Kannski var það rétt? Það fólk ætti að standa með sjálfu sér án þess að ráðast að þeim sem voru að vinna sitt starf af heiðarleika og í góðri trú, þvi að það er ég sannfærð um að Kári hafi gert og hlífa okkur hinum sem völdum að þiggja bólusetningar. Við höfum ekkert gagn af því að vera sagt að við séum asnar – okkur verður það kunnugt fyrr en síðar – ef sú er reyndin. Ekki vitum við allt enn. Sjálfsábyrgðin er harður húsbóndi en eini húsbóndinn sem er óumflýjanlegur. Að trúa öðru er blekking,“ endar Steinunn Ólína pistilinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí