Starfsfólkið sem sér um að gera tæknibrellurnar í Marvel kvikmyndunum, sem eru þær allra stærstu í kvikmyndaheiminum í dag, hafa í fyrsta skipti ákveðið að ganga til liðs við verkalýðsfélagið IATSE (International Alliance of Theatrical Stage Employees).
Verkalýðsfélagið samanstendur af 168.000 meðlimum sem sjá um sviðsmyndagerð og alls konar önnur nauðsynleg störf í leiklistar-, kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Það fólk sem sér um að gera tæknibrellurnar hafa þó hingað til ekki tilheyrt neinu verkalýðsfélagi, og hafa vinnukjör þeirra verið alræmd vegna álags og lágra launa. Þetta er því sögulegt skref hjá þessum mikilvæga hópi starfsfólks kvikmyndanna.
Þessi tilkynning þeirra kemur á sama tíma og sögulegt verkfall í Hollywood á sér stað. En bæði leikarar, sem tilheyra verkalýðsfélaginu SAG-AFTRA, ásamt handritshöfundum, sem tilheyra verkalýðsfélaginu WGA (Writers Guild of America) eru nú í verkfalli. Bæði verkalýðsfélögin hafa ekki farið í verkfall á sama tíma síðan árið 1960.
Verkfallið hefur nú staðið yfir í 100 daga og ekkert útlit er fyrir neina lausn í deilunni enn sem komið er. Tapið fyrir stærstu kvikmyndaver Hollywood hleypur á hundruðum milljóna, ef ekki milljarða dollara, en öll framleiðsla kvikmynda liggur nú niðri.