Halli hitti mann sem taldi Ísland besta land í heimi þar til hann var handtekinn grunaður um mansal

Haraldur Þorleifsson

Haraldur Ingi Þorleifsson segir frá því á X, sem áður hét Twitter, að hann hafi á þriðjudagskvöld hitt arabískan mann sem varð fyrir barðinu á fordómum á Íslandi, bæði af hálfu lögreglu og maka síns, hvíts karlmanns sem hann hafi í kjölfarið skilið við.

„Á síðasta ári,“ hefst færsla Haralds, sem er á ensku, „ók arabískur karlmaður um Ísland með hvítum eiginmanni sínum og fimmtán ára guðsyni sínum. Skyndilega voru þeir umkringdir lögreglubílum. Mennirnir tveir voru handjárnaðir og handteknir fyrir mansal. Næstu átta klukkustundir sátu þeir í aðliggjandi klefum. Hvíti maðurinn fékk að stíga út úr klefa sínum til að reykja. Komið var fram við hann af virðingu. Sá arabíski var hafður að háði. Þegar lögreglan gerði sér loks grein fyrir mistökum sínum bað hún hvíta manninn þráfaldlega afsökunar. Sá arabíski fékk enga afsökunarbeiðni, enga viðurkenningu þess að handtaka hans hefði verið óréttmæt.“

Haraldur segir að fréttin hafi birst í íslenskum miðlum en farið fram hjá honum á sínum tíma. Þangað til, það er, á þriðjudagskvöld, að hann hitti manninn, sem heiti Naif. Sem hafi sagt honum sögu sína.

Grunaðir um mansal vegna greiðvikni við drengi frá Palestínu

Mbl.is greindi frá handtökunni í maí á síðasta ári. Atburðarásin átti sér stað um miðjan dag, á Vestfjörðum, þar sem hjónin, Naif Tara­bay og Pier­re-Vla­dimir Joliot, voru á leið til Ísafjarðar, ásamt guðsyni sínum. Í frétt mbl.is er haft eftir lögreglu að handtakan hafi verið byggð á misskilningi sem orðið hafi „vegna atviks“ þegar mennirnir sóttu guðson sinn á Leifsstöð.

Eftir að taka á móti drengnum hafi Naif rekist á tvo drengi í flugstöðinni sem voru komnir frá Palestínu og töluðu einungis arabísku. Hann hafi gert sér grein fyrir að þeir væru flóttamenn og líklegast ekki með ferðaskjöl frá heimalandinu. Hann reyndi því að aðstoða þá og varði um klukkutíma í að finna lögreglumenn eða aðra fulltrúa sem þeir gætu ráðfært sig við til að mál þeirra kæmust í réttan farveg. Þá lét hann drengina fá nesti sem Naif og eiginmaður hans höfðu í bílnum.

Það var, samkvæmt fréttinni, þessi greiðvikni Naifs sem gerði mennina nógu grunsamlega í augum íslensku lögreglunnar til að þeir sættu svo hinni harkalegu handtöku og gæsluvarðhaldi á Vestfjörðum, undir grun um mansal.

Ekki djúpt á rasisma á Íslandi

„Og það er ekki allt og sumt,“ bætir Haraldur við í X-færslu sinni. „Eftir atvikið skildi hann við hinn hvíta maka sinn til síðustu tuttugu ára, vegna þess að hann kom honum ekki til varnar á meðan á handtöku þeirra stóð eða að henni lokinni.“

Haraldur segir að Naif segist vera sæll í dag. Og hefur eftir honum að þessi reynsla hafi opnað augu hans. „En sagan er átakanleg. Hann sagði ítrekað að hann hefði haldið að Ísland ætti að vera besta land í heimi. En Ísland á sér langa sögu rasisma. Við segjumst oft ekki vera rasísk, en það þarf ekki að grafa djúpt til að komast að raun um annað.“

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, vísaði því að sögn mbl.is algjörlega á bug að kynþáttafordómar hafi legið að baki handtökunni. „Þetta er ein af þeim aðferðum sem lög­regl­an beit­ir til þess að hafa uppi á grunuðum“ sagði hann um handtökuna. „Þetta er bara hluti af rann­sókn­inni. Við erum að aðstoða annað embætti“.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí