Tenerife kaupir 249 nýja strætisvagna fyrir 13 milljarða

Á Tenerife hefur verið samið um kaup á 249 nýjum strætisvögnum, sem flestir eru knúnir með hybrid tækni, eða blandaðri tækni rafmagns og jarðefnaeldsneytis. Strætisvagnarnir verða afhentir á tveggja ára bili, frá 2024 til 2025, og munu þannig nýtast til að endurnýja flota sem er orðinn meira en tíu ára gamall.

Stjórn TITSA, fyrirtækis í almannaeigu sem annast rekstur almenningssamgangna, gerir kaupsamninginn sem hljóðar upp á rúmar 88 milljón evrur, eða tæpa 13 milljarða króna. Hingað til hefur félagið leigt þá vagna sem nýttir eru við almenningssamgöngur. Enskumælandi fréttamiðillinn Canary Islands hefur eftir forseta TITSA, Enrique Arriaga, að vagnarnir verði allir lagaðir að þörfum fólks með hreyfihömlun.

Vagnar Strætó bs. sumir yfir 20 ára gamlir

Í júlímánuði greindi RÚV frá því að vagnar sem annast almenningssamgöngur á vegum Strætó bs. séu sumir orðnir yfir tuttugu ára gamlir, og þörf sé á endurnýjun flotans. Haft var eftir Jóhannesi Svavari Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, að gömlu vagnarnir séu ekki aðeins þjakaðir af ryðblettum, sprungum í klæðningu og rifnum sætum, heldur séu gömlu vagnarnir dýrari í rekstri, bili oftar og mengi meira en nýrri vagnar. „Þannig að við viljum losna við þessa vagna sem fyrst,“ sagði Jóhannes.

Í fréttinni kom fram að samið hafi verið um kaup á níu vögnum sem verða teknir í notkun nú í haust og ætlunin sé að kaupa tvo til viðbótar á næsta ári, alls ellefu vagna á árunum tveimur. Jóhannes segir það ekki nægja til að viðhalda flotanum, helst þurfi að endurnýja um 20 vagna á einu bretti. Til að viðhalda flotanum og tryggja eðlilega endurnýjun þurfi meira en þann einn og hálfa milljarð sem sveitarfélögin leggja málinu nú til.

Jafnast á við þrjá milljarða fyrir Strætó, m.v. íbúafjölda

Á Tenerife búa um fjórfalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu, 949 þúsund manns á móti 228 þúsund. Með fyrirvara um að sjálfsagt eru engin áætlanagerð alveg svo einföld, samsvara vagnakaupin á Tenerife því, miðað við höfðatölu, að rúmir þrír milljarðar væru lagðir til slíkrar endurnýjunar hjá Strætó, eða tvöföld sú fjárhæð sem nú er miðað við. Fjöldi Íslendinga getur þó hrósað happi að njóta almenningssamgangna sunnar í Atlantshafi, að minnsta kosti hluta úr ári.

Eins og margir íslenskir ferðalangar vita er Tenerife ein Kanaríeyja en Kanaríeyjar eru sjálfstjórnarhérað innan Spánar. Áhersla kanarískra stjórnvalda á öflugar almenningssamgöngur ætti líklega ekki að koma á óvart. Af 70 sætum á þingi Kanaríeyja á stærsti flokkur sósíalista og um leið stærsti flokkur eyjanna, PSC-PSOE, 23 sæti og leiðir meirihlutann. Annar smærri flokkur sósíalista, ASG, er í stjórnarandstöðu eða minnihluta, með þrjú sæti. Samanlagt fara flokkar sósíalista því með 40 prósent þingsæta á Kanaríeyjum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí