Ömurleg framkoma bílstjóra Strætó í garð 10 ára stúlku vakti mikla athygli í gær. Bílstjórinn rak hana út úr vagninum á ókunnugum stað með þeim orðum að hann vildi ekki hafa hana í strætóinum sínum. Stúlkan er lituð á hörund, en faðir hennar er af erlendu bergi brotinn.
Samstöðin fjallaði um málið og lesendur sögðu margir hverjir frá reynslusögum sínum.
Einn segir frá slæmri upplifun sinni af strætóbílstjórum á Suðurnesjum og segir það sérstaklega slæmt hafa verið í vetur. Að sögn var því fólki sem leit út fyrir að vera hælisleitendur „skipað að sitja aftast“ og skipað að þaga. Óneitanlega minnir sú frásögn á réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum og því fræga atviki þegar Rosa Parks neitaði að sitja aftast í strætisvagninum, en svörtu fólki var haldið þar aftast í aðskilnaðarsamfélaginu sem þá var við lýði vesturhafs.
Lesandinn hélt áfram og sagði bílstjóra á Suðurnesjum einnig koma virkilega illa fram við börn, reglulega hafi bílstjórar ekki farið þá leið sem þeir eiga að fara, þannig að börn á leið í og úr tómstundum og íþróttum hafi verið gert lífið leitt. Þá hafi það komið reglulega fyrir hjá ákveðnum bílstjóra að hann stoppaði aldrei á tveimur stoppistöðvum ef börn ýttu á takkann og hlustaði ekki á þau þegar þau báðu, en bara ef fullorðnir gerðu það.
Annar lesandi segist oft hafa orðið vitni af álíka hegðun og fjallað var um í fréttinni.
Þá segir maður frá upplifun konu sinnar sem er frá Asíu, en iðulega stöðvuðu strætóbílstjórar ekki fyrir henni þegar hún beið eftir vögnum á leið í og úr vinnu sinni. Hann þurfti á endanum að keyra hana sjálfur vegna þessa. Eftir að þau fluttu til Noregs hafi slíkt aldrei gerst.
Annar segist hafa margoft orðið vitni að ruddalegri framkomu í garð útlendinga, jafnvel að bílstjórar neiti að hleypa þeim um borð og beri einhver mótbárur við því innan vagnsins sé þeim vísað út líka.
Maður sem gegnir bílstjórastarfi í Noregi segir fréttina gera sig sorgmæddan og umræddur bílstjóri sem vísaði barninu út sé til skammar fyrir starfsgrein sína. Að hans mati breytast sumir bílstjóra í „litla Hitlera þegar þeir setjast undir stýrið“, þeir missi sjónar á því að vera „þjónustustétt ekki eitthvað lögreglu vald“.
Alla jafna er það ekki talið við hæfi að blaðamenn blandi sjálfum sér inn í eigin skrif, en undirritaður, verandi ævilangur notandi Strætó, telur það vert að taka fram að slík framkoma og hegðun strætóbílstjóra er alls ekki óvanaleg. Það er af þeim sökum sem reynslusögur lesenda eru mikilvægar, því svona samfélagsmein eins og kynþáttafordómar og ruddaskapur í garð notenda almenningssamgangna, sér í lagi barna og heimilislauss fólks, verður að afhjúpa.