„Athyglisvert að lesa fundargerðir Strætó varðandi útboð á akstri, þar sem ákveðið var að hafna öllum tilboðum í útboðinu þar sem þau voru umfram kostnaðaráætlun. Hér sést svart á hvítu að útboð er ekkert betra, ekkert hagkvæmt og ef „hagkvæmninnni“ er náð, þá er það úr launaumslagi vagnstjóra eða með skertri þjónustu.“
Þetta segir Sanna Margrét Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, á Facebook en hún segir að hvað Strætó varðar þá fari ekki saman hljóð og mynd. Á meðan við séum hvött til þess að nota Strætó þá sýni fundagerðir að ekki sé tryggt að sú þjónustua sé áreiðanleg. Þetta komi meðal annars fram í umfjöllun Strætó vegna fjárhagsáætlunar. Þar segir:
„Strætisvagnar á nokkrum leiðum eru nú þegar fullnýttir á annatímum, þjónusta hefur verið skert og ekki útlit fyrir að það verði bætt í náinni framtíð. Endurnýjunarþörf og skortur á vögnum er helsta orsökin. Aldur og staða vagnaflotans auka líkur á að fella þurfi niður ferðir sem skerðir enn frekar þjónustu og hefur áhrif á virka notendur og getur hamlað fjölgun þeirra.“
Svo virðist sem kostnaðaráætlun Strætó sé einfaldlega röng. Í það minnsta er undarlegt að ekki sé hægt að fara eftir henni án þess að skerða laun bílstjóra, sem teljast ekki til hálaunastéttar, eða draga úr þjónustu. Sanna vísar í fundargerð stjórnar strætó frá 1. nóvember á síðasta ári en þar segir:
„Opnun tilboða fór fram 28.september 2023 og bárust tilboð frá þremur aðilum, sem reyndust öll vera hærri en kostnaðaráætlun Strætó. Fjallað hefur verið um niðurstöðu útboðsins á nokkrum fundum stjórnar og á eigendafundi.Tillaga framkvæmdastjóra er að hafna öllum tilboðum í útboðinu sem óaðgengilegum með vísan til þess að þau eru umfram kostnaðaráætlun.“