Nýjustu fregnir herma að Strætó sé nú farinn að gera út svartstakka, sem eiga að fylgjast með því hvort farþegar hafi greitt fargjald. Mbl.is greinir frá því að farþegar þurfa nú að vara sig á svartklæddum eftirlitsmönnum. Björn Teitsson, einn helsti sérfræðingur Íslands í samgöngum, segir þetta enn eitt dæmið um að þeir sem stjórna Strætó séu í raun staurblindir.
„Ef þú ert að nota svona kerfi, sem er annars bara fínt, þá áttu ekki að bæta við „skönnum“, heldur hætta að nota þá. Þeir hafa bara verið til ama, biluðu síðast í gær. Fólk ætti þá að geta labbað inn í vagninn hvar sem því hentar og virkja sína miða sjálf. Þannig er það í öllum okkar samanburðarlöndum. Ég skil ekki þetta fyrirtæki, það er eins og það sé staurblint yfir því sem vel er gert annars staðar, hreinlega neitar að nota einfaldar lausnir,“ skrifar Björn á Facebook.
Hann segist einfaldlega ekkert botna í þessu opinbera fyrirtæki. „Samt heyrir maður alltaf af einhverjum byltingarkenndum breytingum, sem aldrei raungerast. Af hverju kosta t.d. 10 miðar í einu jafn mikið og 10x einn miði? Ennþá? Það er svo margt við þetta sem er á algeru „feels-like-I’m-taking-crazy-pills-leveli“, bæði það sem er gert (kaupa gallað greiðslukerfi á hundruð milljóna) eða ekki gert (bæta verðskrá eða markaðssetja strætó f ferðamenn),“ segir Björn.