Fjórða hækkun Strætó á einu ári

Strætó mun hækka gjaldskránna enn og aftur núna 1. júlí næstkomandi. Það gerir fjórðu hækkun miðaverðs á einu ári.

Ævintýralega lélegar samgöngur strætisvagnanna með sínum endalausu töfum, bilunum og klúðurslegu og rándýru miðakerfi, Klappið. Ekkert af þessu virðist réttlæta endalausar hækkanir, en staðan er þó samt sú að miðaverðin munu hækka enn á ný, í þetta skiptið um 3,3%. Miðinn hækkar því úr 630 upp í 650 frá og með 1. júlí.

Miðinn hækkaði síðast í janúar, úr 570 upp í 630, sem þá var gríðarhátt stökk um 11%. Þar áður hækkaði miðinn í júlí á síðasta ári, úr 550 upp í 570. Miðinn hefur því hækkað um 100 krónur frá því í júlí í fyrra, sem gerir tæplega 20% hækkun á ársgrundvelli.

Sérstaklega þykir þetta þó ljótt innlegg í nýafstaðnar kjaraviðræður, þar sem kjarasamningar lögðu ábyrgðina jafnt á launafólk, launagreiðendur og opinberar stofnanir, að halda aftur af hækkunum.

Launafólk tók allavega á sig launaskerðingu, þar sem laun hækkuðu minna en sem nemur hækkun neysluverðs. Fyrirtæki eru fyrirtæki og það sér hvert mannsbarn sem fer út í búð að versla að verðin hækka þar áfram, enda markaðurinn „frjáls“.

Það orkar þó tvímælis að opinber stofnun eins og Strætó taki slíka ákvörðun, enda hefur hið opinbera miklu ríkari ábyrgð og skyldur að bera til almennings heldur en fyrirtæki á markaði.

Aðspurður um þann augljósta misbrest og hvort stofnunin hefði ekki átt að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, í viðtali við mbl.is, sagði Jó­hann­es Svavar Rún­ars­son, framkvæmda­stjóri Strætó bs., „við erum ekki enn búin að gera kjara­samn­inga við okk­ar fé­lag [stétt­ar­fé­lagið Sam­eyki]“. Hann bar því svo við að Strætó væri bara að fylgja vísitöluhækkunum, en væri langt undir launaþróuninni.

Jóhannes svaraði því greinilega ekki spurningunni, enda hefur hann engin svör að veita. Markmið kjarasamninganna var að halda aftur af gjaldskrárhækkunum til að minnka verðbólguna, ekki bókstaflega að fylgja verðbólgunni eins og framkvæmdastjóri Strætó virðist telja rökrétt að gera.

Gjaldskrárhækkunin á auðvitað ekki bara við um miðaverðið, heldur leggst hækkunin á allt, þar með talið tímabilskort og fleira, miðaverðið er bara hentugt til að sjá hvað hækkunin þýðir.

Hækkunin þýðir jafnframt að aukinn kostnaður bitnar fyrst og fremst á láglaunafólki, öldruðu fólki og nemendum, enda þeir hópar langlíklegastir til að þurfa á almenningssamgöngum að halda. Hækkanirnar munu þannig ekki bitna á stjórnendum Strætó, sem er hálaunað fólk á einkabílum.

Þar fyrir utan þá þýðir 3,3% hækkun Strætóverðs langtum meira fyrir manneskju á lágum launum, eins og gefur að skilja.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí