Viðskiptablaðið gagnrýnir tvöfalt siðgæði Bjarna og Sjálfstæðisflokksins

„Óskiljanlegt er með öllu að forysta Sjálfstæðisflokksins skuli ítrekað reyna að koma í veg fyrir að almenningi berist upplýsingar um hvernig staðið var að sölu eigna skattgreiðenda hjá Lindarhvol. Til að setja hluti í samhengi nam Íslandsbankahluturinn innan við 15% af verðmæti eigna Lindarhvols,“ segir ritstjórn Viðskiptablaðið undir dulnefninu Óðinn og heldur þar áfram gagnrýni sinni á Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson formann flokksins sérstaklega.

Tilefnið núna er samanburður á úttekt eftirlitsstofnana á sölu Íslandsbanka á eigin bréfum annars vegar og sölu Lindarhvols á eignum ríkisins hins vegar. Viðskiptablaðið bendir á hversu ólík afgreiðsla ríkisendurskoðunar var á þessu tvennu.

„Af hverju fékk Bankasýslan afleita einkunn hjá Ríkisendurskoðun en Lindarhvoll hæstu einkunn í úttekt stofnunarinnar? Af hverju segir Guðmundur Björgvin ríkisendurskoðandi og stjórnmálafræðingur að „það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að skera úr um ágreining við lagatúlkun“ þegar kemur að skýrslunni um Bankasýsluna, en kemur svo með lagatúlkanir á færibandi þegar kemur að Lindarhvoli?“ spyr Viðskiptablaðið meðal annars.

Og blaðið gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn fyrir að stansa gegn því að almenningur fái upplýsingar um sölu á eignum sínum.

„Eitt af því sem stendur upp úr í málflutningi þessara svokölluðu sjálfstæðismanna er að Sigurður Þórðarson hafi ekki lokið gerð skýrslunnar og því sé skýrsla hans einungis drög og vinnugagn í málinu. Er klifað á þessu. Formið trompar því innihaldið. Þetta er ein stærsta meinsemd Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar blaðið. Og heldur áfram: „Enginn gefur því hins vegar gaum að Fjármálaráðuneytið, stjórn Lindarhvols og framkvæmdastjóri þess, neituðu blákalt að svara fjölmörgum fyrirspurnum Sigurðar Þórðarsonar, sem þeim var þó skylt að gera.“

Viðskiptablaðið fullyrðir að endanleg skýrsla um Lindarhvol hafi verið hrákasmíð. Bendir á til samanburðar að þar var verið að fjalla um gríðarlega hagsmuni, salan á bréfunum í Íslandsbanka var aðeins 15% af verðmæti þess sem selt var út úr Lindahvoli.

Yfirferð Óðins er ítarleg og lesa má hana hér: Íslandsbanki og Lindarhvoll – tvöfalt siðgæði. Þessi gagnrýni beinist ekki aðeins að ríkisendurskoðun fyrir hrákasmíð sína, heldur fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum fyrir að hylma yfir það sem gert var í Lindarhvol. Og sérstaklega að Sjálfstæðisflokknum sem ver þessa leynd.

Og þagnarmúrinn heldur enn: „Raunar reis þagnarmúrinn svo hátt að Sigurður þurfti eitt sinn að hóta Seðlabanka Íslands að hann myndi óska eftir liðsinni lögreglu fengi hann ekki svör við sínum fyrirspurnum. Meðal annars vegna þessarar tregðu náði Sigurður ekki að ljúka ýmsum athugunum sínum í skýrslunni,“ stendur í Viðskiptablaðinu.

Og blaðið lýsir eigin raunum við að draga hið rétt fram: „Það sama má segja um eftirgrennslan blaðamanna hér á Viðskiptablaðinu. Þeir voru óþreytandi misserum saman við að senda inn fyrirspurnir sem ekki var svarað, ekki einu sinni eftir að Úrskurðarnefnd upplýsingamála hafði tekið undir með blaðinu. Þegar stjórnarmenn Lindarhvols voru svo tilneyddur til að svara spurningum fyrir framan dómara mundu viðkomandi lítið sem ekkert!“

Stigvaxandi gagnrýni Viðskiptablaðsins á Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Bjarna Benediktssonar er eitt merkja um vaxandi ókyrrð á hægri væng stjórnmálanna. Þar hefur þolið gagnvart síendurteknum hneykslismálum tengdum Bjarna minnkað hratt, þótt þolið gagnvart þessum hneykslum vaxi meðal forystu Vg og Framsóknar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí