Landsmönnum fjölgaði um 10.900 manns frá júní í fyrra fram í sama mánuð í ár samkvæmt tölum Hagstofunnar. Störfum fjölgaði hins vegar um 14.300 manns. Til að fylla þessi störf kom ekki aðeins fólk til landsins heldur fækkaði fólki utan vinnumarkaðarins um þúsund eða svo og atvinnulausum um 2.400. Og til viðbótar fjölgaði vinnustundum um heila tvo tíma á viku að meðaltali.
Ef við leggjum saman fjölgun starfandi og fjölgun vinnustunda þá jafngildir það 11,5% stækkun vinnumarkaðarins á einu ári. Í tölum Hagstofunnar, sem ná tuttugu ár aftur í tímann, eru engin merki um slíkan vöxt í júní. Næst kemur júní 2015 með 6,1% vöxt af sömu forsendum. Það hvín því í öllu á vinnumarkaði: Störfum fjölgar, atvinnuleysi minnkar og þau sem eru við störf vinna lengur.
Þetta merkir að það er eftirspurn eftir vinnuafli. Og reikna má með launaskriði af þeim sökum. Og síðan launahækkunum eftir samninga í haust og vetur, en í þenslu elta kjarasamningar oft þær launahækkanir sem ofþaninn vinnumarkaður hefur þegar hleypt í gegn. Eins og sagt er á vörumarkaði þá er einskonar seljendamarkaður á vinnumarkaði um þessar stundir, launafólk er í sterkri stöðu gagnvart vaxandi þörf fyrirtækja á vinnuafli.
Hér sést að atvinnuleysið er komið niður í það sem var á árunum fyrir Hrun. Við Hrunið 2008 jókst atvinnuleysi mikið og svo minna í cóvid.
Hér má svo sjá hversu hratt fjöldi starfandi vex eftir að cóvid gaf eftir. Það sem keyrir áfram vinnumarkaðinn er ferðaþjónustan sem er vinnuaflsfrek atvinnugrein sem greiðir tiltölulega lág laun. Vöxtur hennar fjölgar því hlutfalli láglaunafólks. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt þá eykst hagvöxtur á mann miklu minna. Geta samfélagsins til að tryggja landsmönnum bætt kjör vex því ekki í sama hlutfalli og hagkerfið þenst út.
Þetta er veikleiki ferðaþjónustunnar, eins og margir hagfræðingar hafa bent á. Fjölgun ferðamanna stækar hagkerfið en styrkir ekki samfélagið að sama skapi, veikir það jafnvel til lengri tíma. Þau sem hagnast af ferðaþjónustunni er fólk sem arðrænir annað fólk, dregur til sín arðinn af vinnu þess. Og hagnaðarsókn þessa fólks heldur lágum launum niðri.