WHO tilkynnir um vöktun á nýju Covid-afbrigði

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) tilkynnti á fimmtudag að nýtt afbrigði af Covid yrði sett í gæslu eða „under monitoring“. Sóttvarnalæknisembætti Bandaríkjanna (CDC) hefur að sama skapi sagst gefa gaum að afbrigðinu, eftir að það uppgötvaðist í Michigan. The Guardian greindi frá málinu á föstudag, þegar afbrigðisins hafði einnig orðið vart í London.

Ný afbrigði af Covid eru daglegt brauð og sæta yfirleitt ekki tíðindum, þar sem veiran stökkbreytist afar ört, enda má segja að hvert smit leggi hinni lið við þá nýsköpun. Þetta tiltekna afbrigði sker sig úr af tveimur sökum. Annars vegar vegna þess hve margar stökkbreytingar hafa orðið á því, eða 33 alls á sprotaprótíninu, svonefnda, sem ræður því hvernig veiran tengist frumum mannslíkamans; hins vegar vegna þess hve víða afbrigðisins hefur orðið vart á skömmum tíma: það fannst fyrst í Ísrael í upphafi vikunnar en hefur síðan, á aðeins fjórum dögum, stungið upp kollinum í Bandaríkjunum, Bretlandi og í Danmörku.

Það er að þessu tvennu samanlögðu, veigamiklum breytingum á sprotum veirunnar, og hraðri útbreiðslu í upphafi, sem sérfræðingar segja tilefni til að gjalda sérstakan varhug við afbrigðinu, þar sem það geti bent til að það komist greiðar fram hjá fyrra ónæmi og öðrum vörnum en þau sem þegar eru í umferð.

BA.2.86 heitir afbrigðið sem nú verður því vaktað: undirafbrigði af BA2 sem var undirafbrigði Omicron, sem er afbrigði upphaflegu SARS-2 veirunnar að baki Covid-19.

Engin ný tilmæli, aðeins sömu leiðbeiningar og áður

Vöktuninni fylgja að svo stöddu engin ný tilmæli til stjórnvalda eða almennings og vænta má að hver og einn hagi áfram sínum sóttvörnum eftir eigin áhættumati, eins og hingað til.

Meðal áhættuhópa í gildandi leiðbeiningum sóttvarnalæknis hér á Íslandi eru sagðir aldraðir, barnshafandi konur, fólk með fíknsjúkdóma, geðraskanir, hjartasjúkdóma, krabbamein, langvinna lifrarsjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, langvinna vöðva- og taugasjúkdóma, offitu, ónæmisbælingu, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, líffæraþegar, fólk með meðfædda ónæmisgalla, skerta nýrnastarfsemi eða sykursýki, ásamt börnum með langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, eða langvinna taugasjúkdóma.

Ofantaldir eru hvattir til að sýna varkárni, sem fyrr segir, án þess að forðast samneyti við annað fólk, viðhafa smitvarnir „sem felast í að viðhafa 1 metra nándarmörk og forðast fjölmenni eins og kostur er“. Þá er sagt að andlitsgrímur eigi við „í ákveðnum kringumstæðum“ og „tíður og góður handþvottur/handsprittun“ eigi alltaf við. Loks er þeim sem umgangast einstaklinga í áhættuhópum bent á sömu atriði og áhersla lögð á að „þeir haldi sig fjarri þeim ef þeir hafa einkenni sjúkdóms eða greinast með COVID-19.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí