Fangelsismálastofnun hefur ekki upplýsingar um hversu margir hælisleitendur eru eða hafa verið vistaðir sem gæsluvarðhaldsfangar fram að brottvísun, og raunar engar upplýsingar um það hvort fangi sé hælisleitandi, að sögn fulltrúa stofnunarinnar.
Stofnunin býr hins vegar að gögnum um fjölda þeirra fanga sem er brottvísað í kjölfar gæsluvarðhalds. Ætla má að verulegur hluti þeirra sé úr hópi hælisleitenda, það er umsækjenda um vernd, sem synjað hefur verið. Sá fjöldi hefur aukist gríðarlega á undanliðnum árum. Allt árið 2015 voru sjö manns í gæsluvarðhaldi fram að brottvísun, árið 2016 voru það tveir, þrír árið eftir og sex árið 2018. Fjöldinn jókst þannig margfalt árið 2019, þegar tuttugu manns sættu gæsluvarðhaldi fram að brottvísun. Þeim fækkaði aftur árið 2020 og má ætla að heimsfaraldur og takmarkaðar alþjóðasamgöngur hafi þá sett strik í reikninginn, en frá árinu 2021 hefur fjölgunin haldið áfram, úr 18 manns það ár í 36 árið 2022 og 44 það sem af er árinu 2023.
Það sem af er þessu ári hafa með öðrum orðum 44 manneskjur sætt gæsluvarðhaldi í fangelsum landsins fram að brottvísun.
Vænta má að það sé að verulegu, ef ekki öllu leyti, sá hópur sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vísaði til þegar hún sagði í viðtali við Kastljós RÚV í ágústmánuði sl.: „Íslensk stjórnvöld hafa í dag heimild, og eru að beita heimild, til þess að fangelsa fólk, að fara með fólk hér inn í mestu öryggisgæslu sem við Íslendingar eigum, meðal annars inni á Hólmsheiði, og þar er fólk hreinlega sett í varðhald fram að brottför. Þar er fólk í hæstu öryggisgæslu, innan um dæmda glæpamenn, fólk sem hefur ekki framið neina glæpi, og á eingöngu að fara frá landinu.“
Hungurverkföll í fangelsum
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, sagði nýverið í samtölum við fjölmiðla að tilfelli hungurverkfalla í fangelsum landsins hefðu verið um tvö á ári undanfarin ár. Samkvæmt gögnum sem Samstöðinni hafa borist frá Fangelsismálastofnun hafa þau verið ívið fleiri eða átta samanlagt, á þeim tæpu þremur árum sem liðin eru frá upphafi ársins 2021. Tilfellin eru sögð misalvarleg, en áður hefur komið fram í máli fangelsismálastjóra að í alvarlegustu tilfellum eru einstaklingar „mjög langt leiddir og alvarlega veikir vegna næringarskorts,“ að sögn fangelsismálastjóra. „Í vissum tilvikum,“ sagði hann í samtali við blaðamann, „hefur þetta leitt til þess að viðkomandi hefur verið færður á sjúkrahús.“
Þó að Fangelsismálastofnun hafi ekki upplýsingar um hverjir í hópi gæsluvarðhaldsfanga hafa sótt um vernd á landinu segist Páll þó geta fullyrt að þeir fangar sem beitt hafa hungurverkfalli séu „að hluta til hælisleitendur.“