Nýleg hungurverkföll í fangelsum hafa verið alvarleg og leitt til sjúkrahúsvistar

Nýleg hungurverkföll í fangelsum landsins hafa í sumum tilfellum verið alvarleg og leitt til sjúkrahússvistar. Engin gæðaskjöl eru til fyrir heilbrigðisstarfsfólk að fylgja í slíkum aðstæðum hér á Íslandi. Í hversu mörgum tilfellum hungurverkföllin hafa verið hafin af flóttafólki eða hælisleitendum sem bíða brottvísunar er ekki ljóst að svo stöddu, enda fylgja slíkar upplýsingar um forsendur varðhalds ekki þegar fangelsi taka við gæsluvarðhaldsföngum. Þetta kom fram í samtali blaðamanns við Pál Winkel, fangelsismálastjóra.

„Fólk sem hefur ekki framið neina glæpi“

Undir lok sumars kom það fram í máli dómsmálaráðherra, sem ekki virðist hafa verið gert opinbert áður, að ótilgreindur fjöldi flóttafólks eða umsækjenda um vernd væri settur í gæsluvarðhald í fangelsum landsins fram að brottvísun. Með orðum ráðherrans: „íslensk stjórnvöld hafa í dag heimild, og eru að beita heimild, til þess að fangelsa fólk, að fara með fólk hér inn í mestu öryggisgæslu sem við Íslendingar eigum, meðal annars inni á Hólmsheiði, og þar er fólk hreinlega sett í varðhald fram að brottför. Þar er fólk í hæstu öryggisgæslu, innan um dæmda glæpamenn, fólk sem hefur ekki framið neina glæpi, og á eingöngu að fara frá landinu.“

Stuttu síðar greindi Vísir frá því að hungurverkföllum fanga hafi farið fjölgandi undanliðin misseri. Sérstaklega var tilgreint í umfjöllun miðilsins að hælisleitendur beiti stundum þessu neyðarúrræði. Fréttir af þessum hungurverkföllum virðast ekki hafa borist fjölmiðlum á meðan þau standa yfir.

Samstöðin bíður samantektar á þeim gögnum sem Fangelsismálastofnun hefur undir höndum um hungurverkföllin. Á meðan gagnanna er beðið átti blaðamaður orð við Pál Winkel, fangelsismálastjóra, um málið.

Fangelsismálastofnun veit ekki hvaða fangar eru hælisleitendur

Páll var á ferð milli fangelsa þann dag en gaf sér tíma í að svara spurningum. Í fyrsta lagi sagði hann gögn Fangelsismálastofnunar um þessi mál takmörkuð. Stofnunin hafi til að mynda ekki gögn um það hver í hópi gæsluvarðhaldsfanga sætir varðhaldi sem hælisleitandi og hver ekki:

„Það sem við vitum ekki er hvort viðkomandi er hælisleitandi. Ef hann er í gæsluvarðhaldi getur það verið út af ýmsum málum, rannsóknarhagsmunum, almannahagsmunum o.s.frv. Við í sjálfu sér vitum ekki meira um málið, það er ekki skráð hjá okkur. Við fáum bara vistunarseðil.“

Inntur nánar eftir því hvernig skráningu er háttað ef Fangelsismálastofnun hefur ekki þessi gögn svarar Páll:

„Okkar verkefni hvað varðar gæsluvarðhaldsfanga er að við tökum við lögmætum úrskurði dómara, sem hefur þá út frá lögunum ákveðið að samþykkja kröfu um gæsluvarðhaldsbeiðni. Við fáum bara þessa pappíra, að viðkomandi sé úrskurðaður í gæsluvarðhald. Og takmarkanirnar séu þessar og þessar. Það er þá okkar að taka við viðkomandi, kanna að skjölin séu lögmæt, við tökum þá við viðkomandi og hann er þá í okkar húsnæði, á okkar vegum, á meðan þessi gæsluvarðhaldsúrskurður er í gildi.“

Páll staðfesti þó að í hópi þeirra sem beitt hefðu hungurverkfalli væru umsækjendur um vernd: „En þetta eru að hluta til hælisleitendur, tel ég mig geta fullyrt. Þetta eru mál sem hafa verið alvarleg. Gengið langt. Eins og kom fram.“

Mega ekki neyða mat ofan í fólk í hungurverkfalli

Þar vísar Páll bæði í umfjöllun Vísis og grein sem áður birtist á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, eftir Huldu Birgisdóttir, sem hefur starfað í áratug sem hjúkrunarfræðingur í fangelsi. Sú grein ber heitið „Vaktin mín – Mikilvægt að mæta skjólstæðingum af virðingu“ og birtist nú í sumar. Þar greinir Hulda frá degi í starfi sínu við fangelsið á Hólmsheiði. Í greininni má lesa:

„Gæsluvarðhaldið er þungt í dag, þar eru fimm einstaklingar, þar af eru fjórir erlendir. Einn af erlendu gæsluvarðhaldsföngunum er hælisleitandi sem er í hungurverkfalli. Hungurverkfall fanga er það sem við sjáum í sívaxandi mæli en engin gæðaskjöl eru til fyrir heilbrigðisstarfsfólk hér á Íslandi til að fara eftir ef skjólstæðingar okkar eru í hungurverkfalli. Eftirlit með slíkum föngum þarf að vera daglegt en vegna takmarkaðs fjármagns hefur ekki verið unnt að auka stöðugildi hjúkrunarfræðinga eða lækna við fangelsið. Mikill tími fer í túlkun við erlenda fanga, oftast notum við túlka-app, þar sem ekki er hlaupið að því að fá túlk í fangelsið. Það gengur oftast vel að nota appið en það tekur töluvert lengri tíma að sinna erlendum föngum sem einungis tala sitt móðurmál.“

„Hjúkrunarfræðingarnir eru ekki starfsmenn hjá okkur,“ útskýrir Páll. „Þau vinna hjá Heilsugæslunni. En þarna kemur þetta fyrst fram. Og ég get bara svarað að já þetta gerist og þetta eru svona tvö tilvik á ári síðustu árin. Og verkefni okkar auðvitað er skýrt. Það sem er óþægilegt er að við getum ekki tekið völdin. Eða þannig eru bara okkar leikreglur, við megum ekki – ef viðkomandi er andlega heill þegar þessi ákvörðun er tekin þá getum við ekki tekið fram fyrir hendurnar á andlega frísku fólki sem tekur þessa ákvörðun.“

– Já, þú meinar neyða ofan í þau mat eða slíkt?

„Já. Þannig að við látum bara lækna vita strax. Svo er stöðug gæsla og eftirfylgni af þeirra hálfu með viðkomandi. Í vissum tilvikum hefur þetta leitt til þess að viðkomandi hefur verið færður á sjúkrahús.“

Börn fara ekki í fangelsi – nema í einangrun

Loks ber blaðamaður undir Pál óstaðfestar upplýsingar sem hann sá í athugasemd við frétt, um að umsækjendur um vernd sem vistaðir eru í fangelsum fram að brottvísun hafi í einhverjum tilfellum orðið þar fyrir barsmíðum og verið sendir lemstraðir úr landi. Hvort Páll þekkti til slíkra tilfella. Páll sagðist aðeins kannast við eitt slíkt mál, frá því „fyrir Covid“, þá fyrir 4-5 árum síðan, „þá var hælisleitandi – hann var allavega kallaður hælisleitandi – einstaklingur sem var í gæsluvarðhaldi var laminn á Litla Hrauni. Ég ætti að muna nafnið, það var mikið í fréttunum. Það er ekkert nýlegt sem ég veit um. Það eru alltaf pústrar reglulega en ég hef ekki upplifað … við höfum þessa einstaklinga á Hólmsheiði og þar er mikil skipting á milli deilda. Það hefur bara gengið alveg glimrandi vel. Þetta fólk hefur bara hagað sér ágætlega, upp til hópa. Þetta eru bara misjafnir einstaklingar, alveg eins og í öllum þjóðernum eða hvernig sem það er. Sumir Íslendingar haga sér illa og sumir vel og flestir vel og það er svosem eins bara með alla hópana.“

Eina spurningu enn bar blaðamaður undir Pál áður en símtalinu lauk: hvort það væri áreiðanlega bara fullorðið fólk sem er sett í þessa stöðu, það er í varðhald fram að brottvísun, og aldrei fjölskyldur eða börn?

„Nei,“ svaraði Páll, „og vel að merkja hefur það verið þannig í nokkuð mörg ár að einstaklingar undir 18 ára koma ekki í fangelsi, nema í einangrun og þessir einstaklingar eru aldrei í einangrun. Þeir kannski koma í einangrun í skamman tíma á meðan rannsóknarhagsmunir krefjast en um leið og því linnir þá eru þeir fluttir á Stuðla. Það er rosa mikil framför. Við höfum verið hörð á því líka.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí