Frá árinu 2019 til 2022 fækkaði þeim sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða fækkað úr 78% aðspurðra í 67% meðal karla, en úr 75% í 68% meðal kvenna. Sé aðeins litið yfir tveggja ára tímabil, frá 2021 til 2022, stóð hlutfallið í stað í 68% meðal kvenna, en féll verulega, úr 73% í 67%, meðal karla milli sömu ára.
Þetta kemur fram í nýju tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, sem kom út á fimmtudag.
Ungum konum líður verst
Hliðstæð þróun hefur átt sér stað á svörum fólks við spurningum um hamingju sína: frá 2019 til 2022 fækkaði þeim körlum sem segjast hamingjusamir úr 59% aðspurðra í 53% en meðal kvenna úr 62% í 56%.
Þó nokkur munur er meðal aldurshópa í mati á andlegri heilsu. Ungar konur meta andlega heilsu sína versta, og raunar sagði naumur minnihluti kvenna á aldrinum 18–24 ára andlega heilsu sína góða eða mjög góða, eða 49%, árið 2022. Það hlutfall hækkaði þó lítið eitt milli ára, úr 46% árið 2021.
Andleg heilsa ungra karla hefur mælst nokkru hærri fram til þessa, en tók verulega dýfu niður á við árið 2022, samkvæmt könnuninni: árið áður mátu 65% ungra karla andlega heilsu sína sem góða eða mjög góða, en árið 2022 hafði það hlutfall lækkað í 51%. Þeim fækkaði með öðrum orðum um rúman fimmtung, sem er skarpari niðursveifla en í öðrum hópum.
Blönkum líður þó allra verst
Af þeim hópum sem skilgreindir eru í könnuninni og birtir í fréttabréfinu er hlutfall þeirra sem segja andlega heilsu sína góða eða mjög góða lægst meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman fjárhagslega, eða 44%, árið 2022. Meðal þeirra sem segjast eiga auðvelt með það er hlutfallið 76% og í hópnum þar á milli, sem svarar spurningunni með „hvorki né“ segja 62% andlega heilsu sína góða eða mjög góða.
Í öllum þessum hópum dalaði andleg líðan, samkvæmt könnuninni, allverulega milli áranna 2019 og 2020, þegar Covid-19 heimsfaraldurinn hófst, og hélt áfram að dala árið 2022. Í fréttabréfinu kemur ekki fram í hvaða mánuðum könnunin var gerð.