Byggingarréttur upp á yfir 15 þúsund fermetra gæti gefið Skel um og yfir 1,8 milljarð króna

Samningur Reykjavíkurborgar við olíufélögin um fækkun bensínstöðva gegn byggingarétti mun færa þessum fyrirtækjum gríðarlegan hagnað. Miðað við fyrirætlanir um byggingar á lóð Skeljar, áður Skeljungs, við Birkimel má jafnvel meta þennan samning upp á tugi milljarða.

Lóðabrask í Reykjavík hefur verið taumlaust á undanförnum árum. Í fyrra keyptu Íslenskar fasteignir byggingarréttinn á Orkureitnum á 3,8 milljarða króna af Reitum og seldi svo mánuði síðar á 5,1 milljarð króna til SAFÍR bygginga. Þetta er náttúrlega lyginni líkast, en þannig er braskhagkerfið alla daga.

Orkureiturinn er 18.749 fermetra lóð og þar er gert ráð fyrir 47.050 fermetrum af íbúðum og atvinnuhúsnæði. Byggingahlutfallið er því um 2,51. Miðað við 5,1 milljarð króna söluverð á byggingaréttinum þá gera það um 108 þús. kr. á fermetra. Fólk sem kaupir 70 fermetra íbúð á Orkureitnum er þá að borga tæplega 7,6 m.kr. í einskonar lóðabrasks-gjald. Og tekur til þess lán sem það er ævina á enda að borga og mun á tímabilinu borga þessa upphæð margfalda.

Það var í þessu umhverfi sem olíufélögin sömdu við Reykjavíkurborg um að fækka bensínstöðvum gegn því að fá byggingarleyfi á lóðunum. Olís samþykkti að loka stöðvum við Álfheima, Álfabakka og Egilsgötu. N1 samdi um að loka stöðvum við Ægisíðu, Hringbraut, Stóragerði, Skógarsel og Elliðabraut. Og Skel samdi um að loka stöðvum á Birkimel, í Skógarhlíð og Suðurfelli.

Samanlagt eru þetta lóðir upp á meira en 41 þúsund fermetra. Miðað við byggingamagn og verð byggingarréttar á Orkureitnum má verðleggja byggingaréttinn á þeim upp á um 11,3 milljarða króna á verðlagi síðasta sumars. Þetta er peningar í vasann, olíufélögin þurfa ekkert að gera nema framselja byggingarétt lóðanna til fyrirtækja sem hanna hús, suða í Reykjavíkurborg um meira byggingarmagn og sem munu síðan gera samninga við verktakafyrirtæki um að byggja.

Þessi samningur hefur verið gagnrýndur þar sem fyrirséð var að bensínstöðvum myndi fækka með rafvæðingu bílaflotans. Í sjálfu sér hefði Reykjavíkurborg ekki þurft að færa þessum fyrirtækjum óheyrilegt fé á silfurfati.

En dæmið af Orkureitnum er kannski ekki gott. Kannski munu olíufélögin hagnast miklu meira en um 11,3 milljarða króna.

Skel hefur gert samning við félag sem heitir F33, sem er systurfélag Reirverks, sem er fyrirtæki hjónanna Hilmars Kristinssonar og Rannveigar Einarsdóttur um þróun og uppbyggingu lóðarinnar við Birkimel. Það hefur nú lagt fram tillögur um byggingu 15.500 fermetra á lóðinni. Það er ekki byggingamagn upp á 2,5 eins og Orkureitnum heldur upp á 10,6, meira en fjórfalt magn.

Og þá breytist matið á hagnaði Skeljar. Miðað við Orkureitinn mætti verðmeta byggingaréttinn á Birkimel upp á 395 m.kr. en miðað við plön Reirverks gæti verðmætið verið um 1.680 m.kr. á verðlagi síðasta sumars eða yfir 1,8 milljarð króna á verðlagi dagsins. Þetta er varlega áætlað því fasteignaverð nálægt hjarta 107 Reykjavík er mun hærra en við Suðurlandsbrautina. Húsin á Birkimel verða örstutt frá Mela- og Hagaskóla og þaðan verður aðeins kortersganga niður á Lækjartorg.

Ef við gerum ráð fyrir jafn stórkarlalegri uppbyggingu á öðrum bensínlóðum þá myndi það ekki færa olíufélögunum rúma 11 milljarða króna eins og þegar Orkureiturinn er notaður til viðmiðunar, heldur um 48 milljarð króna. Sem er sturluð upphæð, svo há að erfitt að skilja hana nema í tengslum við ofurhagnað bankanna og aðra viðlíka sturlun í samfélaginu.

Þetta mikla byggingamagn við Birkimelinn hefur valdið undrun. Og líka byggingastílinn, sem er í sama stílnum og allt sem byggt hefur verið í Reykjavík undanfarin ár.

„Þetta er við Hagatorg þar sem glæsilegustu byggingar landsins standa saman á einum stað. Þarna eru Háskólabíó, Hagaskóli, Neskirkja, Melaskólinn. blokkirnar við Birkimel með Birkimel 10 þar fremsta í flokki frábærra fjölbýlishúsa, Þjóðarbókhlaðan, Edda, Veröld og Hotel saga,“ skrifar Hilmar Þór Björnsson arkitekt á Facebook-síðu sína. „Er ekki eitthvað metnaðarleysi eða kannski bara misskilningur að byggja venjuleg hús sem hafa litla tengingu við það sem fyrir er á þessum stað? Hús sem eru nákvæmlega eins og flest hús sem byggð eru á okkar dögum út um allt og eiga lítið samtal við þá perlusnúru byggingarlistaverka sem eru þarna i næsta nágrenni.“

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sem sæti á í umhverfis- og skipulagsráði, blandar sér í umræður undir færslu Hilmars. „Svæðið er til skammar í dag. Risastórt bílastæði sem er autt stóran hluta sólarhringsins, eðli málsins samkvæmt,“ skrifar Hjálmar meðal annars. „Ef að uppbyggingunni verður þarf auðvitað að vanda til verka. Nordic Architecture Office, sem rissa upp myndina, er stór og flott norræn arkitektastofan þar sem allmargir ungir Íslendingar vinna. Ég held að það verði mjög eftir sótt að búa þarna.“

Hilmar gengur svo á Hjálmar og spyr hvort hann sé sáttur við þetta mikla byggingamagn. „Við eigum eftir að fá kynningu á þessum hugmyndum. Get því ekki tjáð mig um þær af neinu viti. En jú ég almennt séð hlynntur uppbyggingu á þessu svæði,“ segir Hjálmar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí