Dagbjört Hákonardóttir er nýr þingmaður Samfylkingarinnar

Dagbjört Hákonardóttir lögfræðingur í Ráðhúsi Reykjavíkur verður nýr þingmaður Samfylkingarinnar við það að Helga Vala Helgadóttir segir af sér þingmennsku. Dagbjört var í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík norður og hefur þrívegis komið inn á þing sem varaþingmaður í forföllum Helgu Völu og Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanna kjörtímabilsins.

Í kosningunum 2021 fékk Samfylkingin fleiri atkvæði í Reykjavík suður, kjördæmi Kristrúnar Frostadóttur, en í Reykjavík norður. En vegna kosningalaga, sem eru bæði skrítin og andlýðræðisleg, datt Jóhann Páll, annar maður í norðri, inn á þing en ekki Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem var í öðru sæti í suðri. Og líklega ofar á lista kjörstjórnar Samfylkingarinnar en Jóhann Páll. En þar sem Reykjavík er klofin í tvö kjördæmi þá mun Dagbjört nú setjast á þing en ekki Rósa. Eða Viðar Eggertsson, sem hefur komið inn á þing sem varamaður í forföllum Kristrúnar þar sem Rósa Björk starfar nú sem verkaefnastjóri í forsætisráðuneytinu.

Dagbjört er fædd 1984, varð 39 ára gömul 14. júlí í sumar. Hún fæddist því á Bastilludeginum. Hún hefur starfað í ýmsum ungliðadeildum Samfylkingarinnar, var í Röskvu, Ungum Evrópusinnum, Ungum jafnaðarmönnum og Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna. Eftir nám starfaði hún sem lögfræðingur Umboðsmanns skuldara og síðan hjá Reykjavíkurborg,

Fyrir síðustu kosningar vakti Dagbjört athygli þegar hún setti færslu á twitter um kjör kvenlögfræðinga hjá hinu opinbera: „Margir að drulla yfir vinnandi millistétt. Það er sannarlega gaman að segja frá þér að kvenlögfræðingar sem vinna í stjórnsýslunni eru oftar en ekki fátækar. Sérstaklega ef þær eru einstæðar mæður.“ Hún rökstuddi þetta síðan: „Þær eru með útborgaðar tekjur yfir 350.000 en fá ekki barnabætur. Afborgun (eða leiga?!) af 4 herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu fer hæglega upp í 200.000-300.000 og þá er daglega neyslan öll eftir. Framfærsluviðmið gera ráð fyrir 284.257 kr. fyrir einstakling með 1 barn. Ég þekki þær allnokkrar sem hafa skilið eða slitið samböndum (eins og gengur og gerist). Um kvöld og helgar vinna þær í umönnunarstörfum til að eiga í sig og á, þ.e. í barnlausu vikunum. Svo eru það námslánin. Þetta er íslenskur verkalýður.“

Dagbjört hefur sem varaþingmaður rætt um útlendingalögin, sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar, lokun Reykjanesbrautar og fjármögnun háskólanna úr púlti Alþingis. En líka um þéttingu byggðar í umræðum um störf þingsins. Látum hana fylgja hér með sem kynningu á þingkonunni nýju:

Dagbjört Hákonardóttir um störf þingsins, 25. janúar 2023

„Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni yfirvalda er að stuðla að heilnæmri þéttingu byggðar um heim allan og Ísland er þar engin undantekning. Við verðum að efla almenningssamgöngur og virka ferðamáta beint á kostnað einkabílsins. Þetta er forgangsatriði ef við ætlum að ná markmiðum okkar um kolefnishlutleysi. Að sama skapi þarf að gera fólki kleift að búa í öruggu og heilnæmu húsnæði. Reykjavíkurborg er með á nótunum. 2.500–3.000 leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir hafa verið byggðar á undanförnum árum, auk 600 íbúða fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, auk þess sem leigueiningum Félagsbústaða hefur fjölgað um önnur 600. Nú hefur verið undirritaður húsnæðissáttmáli milli ríkisstjórnar og fulltrúa sveitarfélaga og markmið jafnaðarmanna ná vonandi fram að ganga því planið nær yfir 23 ára tímabil og gefur af sér samtals 6.600 hagkvæmar og félagslegar íbúðir ef allt gengur eftir. En nú þarf að hefjast handa á þeim svæðum sem nú þegar eru tilbúin og deiliskipulagið er sömuleiðis tilbúið. Hérna erum við að tala um þau svæði þar sem er hægt að byrja að byggja strax. Nú bíða 685 fjölskyldur t.d. eftir því að flytja í hverfið í Nýja Skerjó. Hér erum við að tala um stúdentaíbúðir fyrir nema á landsbyggðinni sem og fjölskyldufólk. Ég minni á að skipulag Nýja Skerjó byggir á samkomulagi við ríkið frá 2013 sem gerir ráð fyrir því að Reykjavíkurborg fái afsal og óskoraðan yfirráðarétt yfir landinu.

Herra forseti. Erum við virkilega stödd á þeim stað að Reykjavíkurborg þurfi að undirbúa aðra málshöfðun gagnvart ríkinu þegar blekið er ekki orðið þurrt á húsnæðissáttmálanum mikla í því skyni að fá aðila máls til að standa við sitt í Nýja Skerjó? Látum það ekki gerast, stöndum við húsnæðissáttmálann og hefjum uppbyggingu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí