Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, segir það sláandi hvernig sífellt sé reynt að grafa undan baráttu Eflingar. Hann spyr hvort snobb og stéttafordómar standi þar að baki í pistli sem hann birtir á Facebook. Þar bendir hann á að ný skýrsla Varða um stöðu og lífskilyrði þeirra sem starfa við ræstingar sýni vel að barátta Eflingar á rétt á sér, svo vægt sé til orða tekið. Sú skýrsla sýnir vel að þeir sem starfa við ræstingar hafa það áberandi verra en flestir í samfélaginu.
Hér fyrir neðan má lesa pistilinn í heild sinni.
Í gegnum árin hef ég fylgst með baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum láglaunafólks og alltaf þótt sláandi hvernig er reynt að grafa undan lögmæti þeirra baráttu.
Ég er viss um að margir telja sig hafa góð efnisleg rök fyrir því hvers vegna Eflingarfólk gerir víst allt rangt og ótaktískt (sem ég er sjálfur ósammála – svo það sé sagt – enda hafa þau skilað árangri sem er langt umfram það sem nokkur þorði að vona og ekki var startið gott) en biðla þó enn einu sinni til þess að sama fólk spyrji sig hvort það geti verið að snobb og stéttafyrirlitning niður á við spili hér eitthvað inn. Valdi því að fólk er miklu meira til í að taka undir alla vöndun sem á við um Eflingu en láti sama slæda hjá fólki sem hefur vit á að tilheyra ríkari hópi.
Eflingarfólk býr við framfærslukrísu og stjórnvöld sem virðast ætla sér að sú krísa versni. Efling er félagsskapur Eflingarfólks og það er einfaldlega þeirra að velja sér forystu, aðferðir og kröfugerðir. Það er ekki eðlilegt að krefja þau sem verst hafa það um að takast á við verðbólguna fyrir okkur hin. Allra síst í landi þar sem fjármálaráðherra lýsir því beinlínis yfir að Seðlabankinn en ekki ríkisstjórnin (eða fjármálaráðherra) eigi að tækla verðbólguna. Staðreyndin er einfaldlega sú að launalægstu 30% hafa óskaplega lítið með verðbólguna að gera í samhengi við til dæmis efsta 0.5%. Það er því bara móralismi á hæstu stigum að heimta að þau reddi þessu fyrir okkur með hrakandi lífsgæðum.
Nýlega gaf Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins út skýrslu um Stöða og lífsskilyrði fólks sem starfar við ræstingar. Skýrslan nær ekki aðeins til Eflingarfólks en höfum alveg á hreinu að hér er fjallað um stóran hóp innan Eflingar.
Niðurstöðurnar eru sláandi:
– Niðurstöður könnunarinnar sýna að fjárhagsstaða þeirra sem starfa við ræstingar er verri en þeirra
sem eru í öðrum störfum á öllum þeim heildarmælikvörðum sem notaðir eru til að meta fjárhagsstöðu
– Niðurstöður könnunarinnar sýna að andleg- og líkamleg heilsa þeirra sem starfa við ræstingar er verri en þeirra sem eru í öðrum störfum.
– Þó nokkuð hærra hlutfall þeirra sem starfa við ræstingar eru með alvarleg einkenni kulnunar (12,1% á móti 9,9% að meðaltali í öðrum störfum) og eru með kulnunareinkenni sem þarf að bregðast við (34% þeirra á móti 27,9%).
– Hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir réttindabrotum á síðastliðnum 12 mánuðum meðal þeirra sem starfa við ræstingar og þeirra sem sinna öðrum störfum. Hærra hlutfall þeirra sem starfa við ræstingar hafa orðið fyrir fjórum að þeim sex tegundum réttindabrota sem tilgreind voru í könnuninni. Hærra hlutfall hafði fengið greidd röng laun (33,2% á móti 22,2%), rangt greitt fyrir yfirvinnu (28,4% á móti 14,6%), ekki fengið greitt í samræmi við ráðningarsamning (5,7% á móti 4,4%) og ekki fengið greitt stórhátíðarálag (10,7% á móti 4,4%).
– hlutfall þeirra sem finna nánast daglega fyrir neikvæðum andlegum einkennum greint meðal þeirra sem starfa við ræstingar og þeirra sem eru í öðrum störfum. Hærra hlutfall
þeirra sem starfa við ræstingar finna nær daglega fyrir öllum þeim níu einkennum sem spurt var um í könnuninni. Þannig upplifir hærra hlutfall næra daglega lítinn áhuga eða gleði við að gera hlutina (23% á móti 13,1%), hafa verið niðurdregin, döpur eða vonlaus (24,9% á móti 9,9%), átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (31,9% á móti 17,7%), fundið fyrir þreytu eða orkuleysi (37,4% á móti 24,9%), átt við lystarleysi eða ofát (20,2% á móti 11,8%), liðið illa með sig eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (23,8% á móti 15%), átt í erfiðleikum með einbeitingu (21,5% á móti 12,3%), hreyft sig eða talað svo hægt að tekið hafi verið eftir því eða hið gagnstæða, verið eirðarlaus eða óróleg og hreyft sig miklu meira en venjulega (10% á móti 6,1%) og hugsað að það væri betra ef þau væru dáin eða um að skaða sig (3,8% á móti 2,2%). Þannig mælist tæplega helmingur (46,1%) þeirra sem starfa við ræstingar.
– Þannig mælist tæplega helmingur (46,1%) þeirra sem starfa við ræstingar með slæma andlega heilsu og er hlutfallið mun hærra en hjá þeim sem eru í öðrum störfum
(35,8%). Þau eru því 1,4 sinnum líklegri en fólk í öðrum störfum til þess að búa við slæma andlega heilsu.
– Hærra hlutfall þeirra sem starfa við ræstingar samanborið við þau sem eru í öðrum störfum meta líkamlega heilsu frekar slæma (16,7% á móti 13,7%) og mjög slæma (5,2% á móti 1,3%).
– Meirihluti þeirra sem starfa við ræstingar býr við þunga byrði af
húsnæðiskostnaði og er hlutfallið mun hærra en hjá þeim sem eru í öðrum störfum (64,4% á móti 41,3%). Að sama skapi er mun lægra hlutfall þeirra sem starfa við ræstingar sem býr við nokkra
byrði (26,8% á móti 43,7%) og enga byrði af húsnæðiskostnaði (6,7% á móti 12,4%).
Þetta er ekkert flókið. Það er hlutverk okkar allra að standa með þeim sem minnst hafa. Það er ekki gert með því að grafa undan lögmæti samtaka fólks.