Finnur skilur ekki að fólk þarf hærri laun því matarverð hjá honum hækkar svo hratt

Í gær reyndi Finnur Oddsson, forstjóri Haga, að færa rök fyrir því að matur sé ódýrari á Íslandi en víða í Evrópu. Við litlar undirtektir. Enda ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem fólk þarf bara fara einu sinni til útlanda á ævinni til að sjá að Finnur fer með þvælu. Einn þeirra sem greinir þetta þó nánar er Marinó G. Njálsson samfélagsrýnir en hann færir rök, sem eru talsvert meira sannfærandi en hjá Finni, um að matur sé í raun hvergi dýrari í Evrópu.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Marinós í heild sinni.

Fimm lönd toppa vísitölu verðs matar og óáfengra drykkja í ESB, EFTA-löndunum og 6 umsækjendalöndum að ESB, samkvæmt Eurostat, tölfræðistofnunar/hagstofu Evrópusambandsins. Þau eru: Danmörk, Ísland, Lúxemborg, Noregur og Sviss. Ég veit af eigin reynslu, að verð á matvöru og óáfengum drykkjum er lægra bæði í Danmörku og Lúxemborg en á Íslandi, sem þýðir að verð þessara vara á Íslandi er ekki neðar en það þriðja hæsta meðal framgreindra 36 landa. Tekið skal fram að þetta eru tölur fyrir 2022, en skv. Hagstofu Íslands, hefur verð á þessum vörum hækkað um yfir 14% sl. ár og að mestu á þessu ári.

Finni Oddssyni, forstjóra Haga, finnst þetta hið besta mál, vegna þess að launafólk hefur svo góðar tekjur. Hann skilur ekki, að fólk er sífellt að sækja sér hærra kaup, vegna þess m.a. að matarverð í búðum hans hækkar hraðar en auga á festir. Um daginn viðurkenndi, t.d., verslunarstjóri hjá honum, að tiltekin vara hefði hækkað um 80% á stuttum tíma.

Flest launafólk kysi frekar, að matarverð hækkaði minna eða alls ekki neitt, því það hefði það betra án hækkananna. Það er nefnilega þannig, að útgjaldaaukning heimilanna verður ekki unnin upp fyrr en í næstu kjarasamningum. Þá hefur launafólk þurft að þola hækkun matar- og drykkjaverðs í kannski 12, 18, 24 eða 36 mánuði (til eru dæmi um lengri tíma) án þess að fá leiðréttingu þess í launum. Svo skulum við ekki líta framhjá verðbótunum sem leggjast á lánin.

Á meðan launafólk hefur þurft að þola þetta, þá hafa Hagar og fleiri aðilar makað krókinn, safnað hagnaði, en passað sig á að greiða hann út sem arð, því það er alveg út í hött að safna í sjóði til að eiga fyrir óumflýjanlegum og gjörsamlega augljósum kauphækkunum sem framundan eru. Svo þegar kemur að nýjum kjarasamningum, þá barma fyrirtækin sér yfir að eiga ekki fyrir hækkun launanna, þó svo að sú hækkun valdi innan við 2% hækkun heildarkostnaðar. Þeim finnst hins vegar, eins og Finni Oddssyni, í fínu lagi að verð hjá þeim hækki um 14-80%.

Er ekki kominn tími til að tengja?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí