Margföldun gervihnatta stefnir næturhimninum í hættu, vísindamenn fyllast náttþrá

Geimvísindamenn hafa stungið upp á hugtakinu noctalgia til að hafa orð á söknuði og eftirsjá eftir þeim óspillta næturhimni sem mannkyn átti lengi að venjast en er nú óðum að hverfa sjónum. Orðið var lagt til í grein sem birtist í tímaritinu Science undir lok ágústmánaðar. Á íslensku mætti ef til vill þýða hugtakið sem náttþrá.

Að fórna himninum fyrir nettengingu

Þar sem Ísland er að verulegu leyti óbyggt enn má ætla að flestir landsmenn eigi reynslu af næturhimni án ljósmengunar. Víða annars staðar er ekki hægt að ganga að því sem vísu.

Geimvísindamaðurinn Paul Sutter tekur viðfangsefnið og nýyrðið til umfjöllunar í nýbirtri grein á vefnum Space.com. Megnið af þeirri ljósmengun sem kemur í veg fyrir að næturhiminninn sjáist að ráði berst frá jörðu, segir hann, að minnsta kosti innan borga. Ljósmagnið sem rafvæðing hefur fært okkur er margfalt á við það sem áður þekktist, með varðeldum, luktum, kyndlum og kertum. Sparperur eða LED-perur sem tóku við af glóperum og valdið hafa straumhvörfum í orkunýtingu, til hins betra, hafa um leið þann fylgifisk að ódýrara en nokkru sinni er að skilja ljósin eftir kveikt, hvort sem er innan- eða utandyra.

Nú er hins vegar útlit fyrir að ljósmengun verði ekki flúin, hversu langt sem maður seilist út fyrir borgir, því sprenging á sér stað um þessar mundir í uppsetningu gervihnatta. Fyrir Starlink kerfi fyrirtækisins SpaceX eitt og sér hefur frá árinu 2019 verið skotið á loft yfir 4.000 gervihnöttum sem nú eru á sporbaug um jörðu. Fyrirtækið ráðgerir að þeir verði yfir 40.000 áður en yfir lýkur. Í samanburði hafði um mitt síðasta ár alls 14.450 gervihnöttum verið komið á sporbaug frá upphafi, og þar af voru 6.800 enn virkir. Markmið Starlink er að bjóða internet-tengingu um alla jörð, óháð staðsetningu. Þannig stefnir í að næturhiminninn eins og hann hefur þekkst frá örófi alda víki fyrir eftirspurn fólks eftir sítengingu við internetið.

Gervihnettir á sporbaug um jörðu þann 19. september 2023. Kort frá satellitemap.space.

Innan tveggja mánaða eftir að fyrstu 60 gervihnöttum Starlink var skotið á loft, árið 2019, tók geimáhugafólk eftir eins konar perlufesti á himni, þar sem gervihnettirnir fóru í halarófu um himininn. Hversu bjartir þeir voru kom nær öllum á óvart, að sögn Space.com, bæði innan fyrirtækisins SpaceX og geimvísindafólki. Einkum hefur síðarnefndi hópurinn lýst áhyggjum af myndgæðum úr næmum sjónaukum í framtíðinni. Alþjóðasamtök geimvísindafólks lýsti áhyggjum yfir þróuninni í yfirlýsingu sem þau gáfu út sama ár.

Himinninn sem hornsteinn mannlegrar tilveru

Áður hafa heyrst áhyggjur af því tjóni sem ljósmengun að næturlagi geti valdið mannlegri skynjun og reynslu. Árið 2006 var slökkt á götulýsingu höfuðborgarsvæðisins í hálftíma að kvöldlagi. Myrkvunin var opnunarviðburður kvikmyndahátíðar í Reykjavík, að undirlagi Andra Snæs Magnasonar rithöfundar, sem sagði viðburðinn snerta „umhverfi og þekkingu almennings á sínu nánasta umhverfi.“ Hann væri ekki síst ætlaður „sem innblástur fyrir börn og unglinga þessa lands sem eru fyrsta kynslóð jarðarbarna sem ekki þekkir stjörnuhiminn í sinni skærustu dýpt. Nú er bara að vona að stjörnurnar láti sjá sig.“

Geimvísindamenn gera sér grein fyrir að næturhiminninn er ekki þeirra einkamál. Paul Sutter skrifar að með næturhimninum glatist ekki aðeins viðfangsefni vísindarannsókna heldur „ríkuleg hefð menningar og þekkingar. Um víða veröld og í gegnum söguna hafa menningarheimar notað himininn sem stökkpall fyrir ímyndunaraflið, málað hetjur, skrímsli og goðsagnir í stjörnuþyrpingarnar.“ Hann segir þessar árþúsunda gömlu sögur ekki handahófskenndar sögur til að skemmta áheyrendum yfir varðeldi, heldur séu þær hornsteinar menningar og samfélaga. „Við deilum öll sama himni. Hver sem kemur úr sama menningarheimi getur borið kennsl á sömu stjörnuþyrpingarnar nótt eftir nótt. Að glata þeim aðgangi og arfi okkar er að glata hluta af mennsku okkar.“

Sutter bendir á að þar með sé ekki heldur öll sagan sögð, því mannfólk séu ekki eina tegundin sem verður fyrir tjóni þegar næturhimninum er spillt. „Til hversu eru þau skynfæri dýra sem hafa aðlagast næturlagi ef næturhiminninn verður ekki mikið dimmari en dagsljósið?“

Við þurfum náttfræði

Aparna Venkatesan og John Barentine, höfundar greinarinnar í Science, stinga ekki aðeins upp á orðinu noctalgia eða náttþrá yfir sorgina sem fylgi því að glata hinum sameiginlega himni okkar, heldur leggja til heiti á heilu rannsóknarsviði sem viðfangsefnið verðskuldi: nyctology eða náttfræði. „Bæði daghiminninn og næturhiminninn eiga skilið vernd sem sameiginlegur arfur jarðar, sem við vonumst til að bera áfram til þeirra sem lifa löngu eftir okkar dag,“ skrifa þau. „Annars gæti þetta bréf til tímaritsins Science staðið eftir sem ummerki um trega en viðbúna afsökunarviðleitni frá þessum harmkvælatímum okkar, til framtíðarkynslóða vísindamanna, sagnaritara, listafólks og fræðara.“

Kort yfir staðsetningu þekktra gervihnetti hverju sinni má finna á vefnum satellitemap.space.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí