Guterres hvetur þjóðarleiðtoga til „hnattrænnar málamiðlunar“ við setningu Allsherjarþings

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ), ávarpaði Allsherjarþingið þegar það var sett í gær, þriðjudag, í höfuðstöðvum SÞ í New York. Í ræðunni lagði Guterres áherslu á þörfina á umbótum á helstu alþjóðastofnunum, sem í núverandi mynd séu úreltar. Í því samhengi nefndi hann sérstaklega Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Bretton Woods samkomulagið, sem gerði Bandaríkjadal að grundvelli alþjóðaviðskipta. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að leiðtogar reyndust fúsir að stunda málamiðlanir, og kallaði eftir „hnattrænni málamiðlun.“

„Veröldin er að ganga af hjörunum“

Ræðu sína hóf Guterres á að rekja hörmungarnar sem dunið hafa yfir í borginni Derna í Líbíu og þær þúsundir sem misst hafa lífið í flóði þegar stífla brast í kjölfar mikilla rigninga. Hann sagði þau vera margfalda þolendur: þolendur þeirra átaka sem hafa geisað í landinu um árabil, þolendur loftslagsóreiðu og þolendur leiðtoga sem finna ekki leið að friði.

Guterres studdist við þessa atburði sem dæmi um stöðu veraldar, hann sagði stöðuna í borginni Derna vera eins og svipmynd af stöðu heimsins, flóði ójöfnuðar, óréttlætis og vangetu til að mæta áskorunum. „Veröldin er að ganga af hjörunum,“ sagði hann. Landpólitísk spenna fari vaxandi, það geri hnattrænar áskoranir einnig og „við virðumst ófær um að ná saman til að bregðast við.“

Heimurinn breyst en stofnanir ekki

Á tímum kalda stríðsins, sagði Guterres, mátti líta á alþjóðavensl út frá sjónarmiði tveggja stórvelda. Í kjölfar þess hafi veröldin í skamma stund verið einhliða. „Nú ferðumst við hratt í átt að fjölhliða veröld,“ sagði hann svo. Þá þróun sagði hann á margan hátt vera jákvæða, hún feli í sér tækifæri í þágu réttlætis og jafnvægis í alþjóðatengslum. En ein og sér geti hún ekki tryggt frið.

Guterres flytur setningarávarp Allsherjarþingsins, þriðjudaginn 19. september 2023.

Að því sögðu vék Gutters máli sínu að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og Bretton Woods kerfinu, sem gerði Bandaríkjadal að grundvelli alþjóðaviðskipta, og sagði hvort tveggja endurspegla „pólitískan og efnahagslegan veruleika ársins 1945, þegar fjöldi landa í þessum salarkynnum voru enn undir yfirráðum nýlenduvelda. Heimurinn hefur breyst. Það hafa stofnanir okkar ekki gert. Við getum ekki tekist á við raunveruleg vandamál með góðum árangri ef stofnanirnar endurspegla ekki heiminn eins og hann er. Í stað þess að leysa vandamál hætta þau á að verða hluti vandans.“

„Umbætur eða rof“

Guterres sagði klofning fara dýpkandi, milli efnahagslegra og hernaðarlegra afla, „milli norðurs og suðurs, austurs og vesturs. Hægt og bítandi færumst við í átt að miklu rofi í hagkerfum, fjármálakerfum og viðskiptatengslum; rofi sem ógnar sameiginlegu, opnu interneti; með misvísandi áformum á sviði tækni og gervigreindar; og mögulegum árekstri milli öryggisviðmiða.“

Það er löngu tímabært, sagði Guterres, „að endurnýja fjölhliða stofnanir á grundvelli hagræns og pólitísks veruleika 21. aldar.“ Það sagði hann fela í sér að gera þyrfti umbætur í Öryggisráðinu og að endurhanna innviði alþjóðafjármála, til að þeir þjóni í reynd sem öryggisnet fyrir þróunarríki í vandræðum. Guterres sagðist ekki gera sér neinar blekkingar, heldur væri honum ljóst að „umbætur eru spurning um vald. Ég veit að ólíkir hagsmunir og áform takast á. En valkosturinn við umbætur er ekki óbreytt ástand. Valkosturinn við umbætur er áframhaldandi sundurliðun. Það eru umbætur eða rof.“

Tími á hnattræna málamiðlun

„Lýðræði er ógnað, harðstjórn færist í aukana, ójöfnuður eykst og haturstal verður háværara,“ sagði hann. „Andspænis öllum þessum áskorunum, og fleiri til, þykir tal um málamiðlanir ruddalegt.“ Guterres sagðist endurtaka það sem hann hefði þegar sagt á ráðstefnu G20 ríkjanna þegar hann sagði: „Það er kominn tími á hnattræna málamiðlun. Stjórnmál eru málamiðlun. Utanríkisþjónusta er málamiðlun. Markviss forysta er málamiðlun.“

Fulltrúar Íslands við setningu Allsherjarþingsins, f.h. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Í ræðunni vék Guterres, eins og hefð er fyrir, að helstu úrlausnarefnum mannkyns um þessar mundir, skimaði bæði vítt og breitt, allt frá réttindum kvenna – „þökk sé kynslóð eftir kynslóð af aðgerðasinnum fyrir réttindum kvenna eru hlutir að breytast“ – yfir að nýjum áskorunum á við gervigreind. Eftir að reifa ekki aðeins þá hættu sem er sögð yfirvofandi heldur þær áskoranir sem þegar eru til staðar vegna nýrrar tækni, sagði Guterres: „We must move fast and mend things“ – við þurfum að hreyfa okkur hratt og gera við hluti.

Sameinuðu þjóðirnar voru skapaðar einmitt með tímapunkta á við þennan í huga, sagði hann loks, „stundir hinnar mestu ógnar og minnsta sameiginlega skilnings.“ Hann hvatti þjóðarleiðtoga í salnum til að láta gróa um heilt og „móta frið“.

Ræðu Guterres í heild má lesa á vef Sameinuðu þjóðanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí