Á laugardagskvöld var haldinn útifundur í Tel Aviv, til að mótmæla því að ísraelsk stjórnvöld skyldu á ný hefja sprengjuárásir á Gasa. Mótmælendurnir saka ríkisstjórn Netanyahus um að hindra þannig að Hamas sleppi þeim 130 gíslum sem samtökin hafa enn í haldi. Þetta var, að sögn The Guardian, í fyrsta sinn sem fjölskyldur fólks í gíslingu Hamas hafa tekið höndum saman með öðrum aðgerðasinnum gegn stríðinu.
Mótmælendur hafa komið saman vikulega í borginni til að krefjast þess að Hamas láti gíslana úr haldi. Það var að loknum þeim reglubundnu mótmælum á laguardag sem fólkið hóf kröfugöngu um ísraelsku herstöðina Kirya, í Tel Aviv, krafðist vopnahlés og fundar með herráði landsins.
Noam Shuster-Eliassi, sviðslistamaður og aðgerðasinni sem tók þátt í seinni mótmælunum, spurði um þá ákvörðun undanliðins föstudags að halda stríðinu til streitu: „Hver er áætlunin? Að halda bara áfram að varpa sprengjum á Gasa?“ Hún sagði að margir þátttakenda væru andsnúnir stríðinu og reyndu að gera allt sem þau gætu til að „stöðva þessa glæpsamlegu ríkisstjórn“ en bætti við að eins og staðan er væri samstaða með fjölskyldum þeirra sem eru í gíslingu það minnsta sem þau gætu gert.
Það mannúðarhlé sem gert var á átökunum í liðinni viku varði í sjö daga. Á þeim sjö dögum slepptu Hamas 81 ísraelskum ríkisborgurum úr haldi, konum og börnum, auk 24ra ríkisborgara annarra landa. Á móti leystu ísraelsk stjórnvöld 240 Palestínumenn úr fangelsum.