Það er einhver vandræðagangur á Ríkissjónvarpinu. Eins og Samstöðin fjallaði um fyrir viku þá byrjar Silfrið ekki á sama tíma og Alþingi, eins og hefð er fyrir. Þess í stað var meðal annars sett á dagskrá á sunnudögum í september endursýningar á Sunnudagsmorgni með Gísa Marteini. En nú eru þeir þættir horfnir af auglýstri dagskrá.
„Silfrið mun sannarlega snúa aftur síðari hluta september þegar það liggur fyrir í hvaða mynd við viljum hafa það, þetta [töfin á Silfri haustsins] er vegna skipulagsmála og Silfrið mun snúa aftur, vonandi sterkara fyrir vikið, það hefur verið á sama tíma í mörg ár og með sama sniði og nú er bara kominn tími til að hrista aðeins upp í þættinum,“ sagði Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri ríkisútvarpsins, í samtali við Moggann í tilefni af frétt Samstöðvarinnar.
Nú hefur dagskrá fram til 15. október verið birt og enn ekkert Silfur að sjá eða arftaka þess. Við fylgjumst áfram með.