Þó Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, sé ekki þekktur fyrir að efast um ágæti eigin hugmynda, þá virðist hann hafa áttað sig á því að hann gekk of langt í nýrri færslu á Facebook. Internetið gleymir þó engu og færsluna má sjá hér fyrir neðan. Um helgina varð Hannes víða aðhlátursefni eftir að hann trylltist í Leifstöð og þjófkenndi saklaust fólk.
Fólkið hafði tekið tösku hans í misgripum sem varð til þess að Hannes öskraði á mæðgur og sagði þeim að þær væru ekki velkomnar á Íslandi, þar sem móðirin var „klædd í múslimabúning“. Mæðgurnar eru íslenskar. Hannes hafði sjálfur skáldað upp sína útgáfu af atvikinu, en starfsmaður Leifsstöðar upplýsti um hið sanna í málinu. Hannes var ekki sáttur með það og gaf til kynna að hann vildi að hún yrði rekin.
Öll þessi atburðarás er nauðsynleg til að átta sig á samhengi færslunnar sem Hannes birti á Facebook, sem er vægast sagt ógeðfelld og tekur af allan vafa um að rasismi hafi ráðið för hjá Hannesi á Leifstöð. Hannes birtir mynd af sjálfum sér í einhvers konar matarboði og skrifar: „Engir múslimar hér í kvöld“. Hann hefur nú eytt færslunni, sem er af sjaldgæft hjá honum og hefur hann þó birt margt vafasamt.